Omran bar gæfu til að breiða út sögu sína í fjölmiðlum um allt en á hverjum degi tökum við á móti fjölda barna sem eru með verri áverka og skelfilega sögu að segja, segir læknirinn í Aleppo sem tók á móti drengnum eftir að honum var bjargað úr húsarústum eftir loftárásir Rússa.
Myndin af Omran Daqneesh vakti heimsathygli en byrjað var að dreifa henni á samfélagsmiðlum á miðvikudagskvöldið og í gær birtist í hún í flestum fjölmiðlum heimsins. Í kjölfarið samþykkti forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, að koma á vopnahléi í borginni í tvo sólarhringa svo mannúðarsamtök gætu komið neyðargögnum til íbúa Aleppo. Var það að beiðni Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins sem samþykkið fékkst.
Myndin af Omran sitjandi í sjúkrabíl, ringlaður, blóðugur og rykugur, minnir mjög á myndina af Aylan Kurdi, drengnum sem skolaði á land á tyrkneskri baðströnd á síðasta ári. Omran er jafngamall stríðsátökunum í Sýrlandi en þau brutust út í mars 2011.
Að sögn læknisins í Aleppo, Mohammad, sem gerði að áverkum Omrans, er Omran kominn til fjölskyldu sinnar og er talið að fjölskyldan hafi öll lifað af árásina. Mohammad segir að Omran hafi ekki einu sinni grátið – svo hræddur var hann. Hann sagði ekkert einasta orð enda í áfalli. Fjölmörg börn geta hins vegar aldrei sagt sína sögu því þau deyja í árásunum sem gerðar eru á Alepppo. Eða þau missa útlimi eða eru örkumla fyrir lífstíð.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, John Kirby, segir Omran hið sanna andlit átakanna í Sýrlandi. „Þessi litli drengur hefur aldrei upplifað dag þar sem ekki er stríð, dauði, eyðing, fátækt í hans eigin landi,“ sagði Kirby á fundi með blaðamönnum í gær.
Ljósmyndarinn Mahmoud Rslan sem náði myndinni af Omran, segist hafa tekið fjölmargar myndir af börnum sem deyja eða særast í sprengjuregninu sem dynur á borginni á hverjum degi. Í viðtali við AFP-fréttastofuna segir hann að þau séu yfirleitt meðvitundarlaus eða grátandi. „En Omran sat þarna orðlaus, starandi tómum augum fram fyrir sig eins og hann gerði sér ekki almennilega grein fyrir því hvað hafði komið fyrir hann.“
Hverfið sem Omran býr í er undir yfirráðum stjórnarandstæðinga og eru oft gerðar loftárásir á það. Meðal annars með tunnusprengjum sem er varpað úr þyrlum stjórnarhersins. Oft eru tunnurnar fullar af nöglum, glerbrotum og öðru því sem getur valdið sem mestum skaða á líkömum þeirra sem fyrir þeim verða. Sýrlandsher og rússneskar herþotur hafa haldið uppi linnulausum loftárásum á Aleppo þessa vikuna á þau svæði í Norður-Sýrlandi sem eru undir yfirráðum stjórnarandstæðinga. Segja þeir það gert til þess að koma í veg fyrir að uppreisnarmenn fái liðsauka inn í Aleppo.
Frá 31. júlí hefur harka færst í bardaga stríðandi fylkinga í Aleppo en þrátt fyrir að hundruð séu látin hefur hvorug fylkingin getað lýst yfir sigri.
Erindreki Sameinuðu þjóðanna, Staffan de Mistura, batt skyndilega endi á vikulegan fund fulltrúa mannúðarsamtaka í Genf í gær í mótmælaskyni yfir því að stríðandi fylkingar hafi ekki heimilað flutning hjálpargagna til almennra borgara. „Ekki ein einasta bílalest hefur komið hjálpargögnum inn á hernumdu svæðin í mánuð,“ sagði hann við fréttamenn.
Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, Igor Konashenkov, sagði síðar sama dag að stjórnvöld í Rússlandi væru reiðubúin til að koma á tveggja sólarhringa vopnahléi til þess að hægt verði að koma hjálpargögnum til Aleppo í næstu viku.
De Mistura fagnaði þessu og sagði að SÞ treystu á stuðning Rússa við að tryggja að sýrlenski herinn stæði við sinn hluta samkomulagsins þegar það tæki gildi.
Yfir 290 þúsund manns hafa látist og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín síðan stríðið hófst í Sýrlandi.
Amnesty International birti í gær skýrslu sem sýnir að sýrlensk stjórnvöld hafa markvisst pyntað fanga í fangelsum stjórnvalda. Meðal annars með barsmíðum, raflosti, nauðgunum og andlegu ofbeldi sem jafnist á við glæpi gegn mannkyninu.
Talið er að yfir 17.700 manns hafi látist í haldi stjórnvalda á árunum 2011 til 2015.