Stone um Snowden

Oliver Stone við frumsýningu á Snowden í Toronto.
Oliver Stone við frumsýningu á Snowden í Toronto. AFP

Mannúðarsam­tök­in Am­nesty In­ternati­onal og American Civil Li­berties Uni­on ætla að biðja for­seta Banda­ríkj­anna, Barack Obama, um að veita upp­ljóstr­ar­an­um Edw­ard Snowd­en sak­ar­upp­gjöf í kjöl­far nýrr­ar kvik­mynd­ar Oli­ver Stone um mál Snowd­ens. 

„Ég tel að Oli­ver eigi eft­ir að gera meira fyr­ir Snowd­en á tveim­ur klukku­stund­um held­ur en lög­fræðing­um hans hef­ur tek­ist að gera á þrem­ur árum,“ seg­ir Ben Wizner, lögmaður Snowd­ens.

Sam­tök­in ætla að senda frá sér sam­eig­in­legt ákall síðar í dag en það verður gert með því að setja af stað her­ferð um all­an heim þar sem fólk er beðið að skrifa und­ir beiðnina. Eins verður reynt að fá áhrifa­fólk til þess að taka þátt auk sam­taka af ýmsu tagi. Und­ir­skrift­um verður safnað á sér­stök­um vef Par­don Snowd­en.

Stone hvatti Obama til þess að veita Snowd­en sak­ar­upp­gjöf þegar hann frum­sýndi mynd sína Swod­en á kvik­mynda­hátíðinni í Toronto í síðustu viku. 

Sarah Harri­son, talsmaður Wiki­Leaks, sem aðstoðaði Snowd­en við flótt­ann frá Hong Kong til Rúss­lands á sín­um tíma, seg­ist von­ast til þess að kvik­mynd­in veiti Snowd­en upp­reisn æru en hún ef­ist um að hann fái sak­ar­upp­gjöf. „Það væri dá­sam­legt ef það myndi ger­ast en ég yrði afar undraði ef það myndi ger­ast,“ seg­ir Harri­son.

Dval­ar­leyfi Snowd­ens í Rússlandi renn­ur út á næsta ári. Harri­son seg­ir að þegar það ger­ist kvikni spurn­ing­in um hvar hann geti verið ör­ugg­ur. „Eðliega hef­ur hann áhuga á að snúa aft­ur heim,“ seg­ir hún í viðtali við AFP frétt­stof­una. En ef það geng­ur ekki þá myndi hann gjarn­an vilja fá hæli í öðrum ríkj­um, þar á meðal í Evr­ópu. Kannski á staða hans eft­ir að batna en hingað til hef­ur hon­um verið synjað um hæli.

Eins og staðan er í dag, þar sem Banda­rík­in eru slíkt veldi og raun ber vitni, eru mögu­leik­ar hans litl­ir. Hún seg­ir að vernd upp­ljóstr­ara sé af skorn­um skammti í Banda­ríkj­un­um en ef al­menn­ing­ur er að taka við sér í þess­um efn­um þá sé það af hinu góða og fyrsta skrefið í átt að  breyt­ingu.

Snowd­en bað Obama per­sónu­lega um að veita sér sak­ar­upp­gjöf í grein sem birt var í Guar­di­an í gær en vitalið við hann var tekið sím­leiðis á mánu­dag þar sem Snowd­en nýt­ur ekki ferðaf­rels­is.

Banda­ríska for­seta­embættið hafnaði beiðni frá 150 þúsund manns um að náða Snowd­en í fyrra með þeim orðum að réttað yrði yfir hon­um. 

Edward Snowden býr nú í Moskvu.
Edw­ard Snowd­en býr nú í Moskvu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert