Upplýsingasöfnunin mannréttindabrot

Höfuðstöðvar MI6 í Lundúnum.
Höfuðstöðvar MI6 í Lundúnum. Wikipedia/Tagishsimon

Sér­stak­ur dóm­stóll í Bretlandi hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að ör­ygg­is­yf­ir­völd í land­inu brutu gegn mann­rétt­ind­um með því að safna per­sónu­leg­um gögn­um um íbúa á laun í um ára­tug.

Um­rædd­ur dóm­stóll er sá eini sem hef­ur til um­fjöll­un­ar kvart­an­ir gegn MI5, MI6 og GCHQ; ör­ygg­is- og leyniþjón­ustu­stofn­un­um Bret­lands. Hann komst að þeirri niður­stöðu að stofn­an­irn­ar hefðu staðið í aðgerðum sem fólu í sér um­fangs­mikla söfn­un upp­ýs­inga um íbúa lands­ins, t.d. varðandi síma- og net­notk­un.

Ekk­ert eft­ir­lit hefði verið með aðgerðunum.

Dóm­stóll­inn sagði að með þessu hefðu stofn­an­irn­ar brotið gegn 8. grein mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu, þar sem fjallað er um friðhelgi einka­lífs­ins. Brot­in áttu sér stað allt frá því að upp­lýs­inga­söfn­un­in hófst 1998 og 4. nóv­em­ber 2015, þegar hún var gerð op­in­ber.

Stofn­an­irn­ar voru einnig sagðar hafa brotið gegn sömu grein sama sátt­mála með því að reka gagna­söfn þar sem finna mátti alls kyns gögn um ákveðna ein­stak­linga, s.s. heilsu­fars- og skatta­upp­lýs­ing­ar, sam­skipta- og ferðagögn og ævi­atriði viðkom­andi.

Þess ber að geta að lá­v­arðadeild breska þings­ins hef­ur til um­fjöll­un­ar um­deilt frum­varp sem veit­ir ýms­um aðgerðum ör­ygg­is­stofn­an­anna stoð í lög­um. Það var Edw­ard Snowd­en sem kom fyrst­ur upp um um­fang aðgerða stofn­an­anna árið 2013.

Fram kem­ur í dóm­in­um að starfs­mönn­um stofn­an­anna voru send­ar viðvar­an­ir um að nota ekki gagna­grunn­ana til að leita að upp­lýs­ing­um um vini, ætt­ingja, ná­granna eða sam­starfs­menn. Þá leiddi rann­sókn dóm­stóls­ins í ljós að inn­an stofn­an­anna höfðu menn áhyggj­ur af leynd­ar­hyggj­unni kring­um upp­lýs­inga­söfn­un­ina.

Ítar­lega frétt um málið má finna hjá Guar­di­an.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert