Ætlar að rannsaka alvarlegar netárásir

Barack Obama vill að netárásirnar verði rannsakaðar.
Barack Obama vill að netárásirnar verði rannsakaðar. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað að rannsókn verði gerð á netárásum í aðdraganda forsetakosninganna þar í landi. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Rússum hefur verið kennt um málið en tölvuþrjótar komust yfir tölvupósta hjá Demókrataflokknum og John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda flokksins. 

Bandarísk yfirvöld ásökuðu Rússa í október um að skipta sér af kosningunum í Bandaríkjunum, sem fóru fram 8. nóvember. Donald Trump, sem sigraði Hillary Clinton og tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar, hefur hafnað því.

„Ég trúi því ekki. Ég trú ekki að Rússar séu viðriðnir þetta mál,“ sagði Trump í viðtali í vikunni og bætti því við að hann teldi það pólitískan leik að bendla Rússa við málið.

Rússnesk yfirvöld hafa neitað öllum ásökunum.

Trump hvatti Rússa í kosningabaráttunni til að finna tölvupósta Clinton. Eftir að þau ummæli ollu hneyksli sagði Trump að þau hefði verið sett fram í kaldhæðni.

Demókratar halda því fram að netárásirnar hafi verið skipulögð tilraun til að krafa undan Clinton. „Forsetinn vill að þetta sé rannsakað því hann telur að málið sé mjög alvarlegt,“ sagði Eric Schultz, talsmaður Hvíta hússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert