Segja Rússa bera ábyrgð á netárásum

Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. AFP

Bandarískar leyniþjónustur, m.a. CIA, halda því nú fram að rússnesk yfirvöld hafi haft puttana í forsetakosningunum í landinu og beri að hluta til ábyrgð á góðu gengi Donald Trump. Greint er frá þessu í fjölmiðlum vestanhafs, m.a. í New York Times þar sem fram kemur að leyniþjónusturnar séu „mjög vissar“ í málinu og telji Rússa hafa tekið þátt í að hakka tölvupósta demókrata.

Upplýsingateymi Trump neitaði ásökunum. „Þetta er sama fólkið og sagði að Saddam Hussein ætti gereyðingavopn,“ sagði í tilkynningu frá skrifstofu Trump.

Þá hafa rússneskir embættismenn ítrekað neitað ásökunum þess efnis að rússnesk stjórnvöld tengist netárásunum. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði í gær að netárásir á meðan kosningabaráttan stóð yfir yrðu rannsakaðar. Árásirnar hafa verið bendlaðar við Rússa.

Fyrri frétt mbl.is: Ætlar að rannsaka alvarlegar netárásir

M.a. réðust tölvuþrjótarnir á tölvupósta innan Demókrataflokksins og helsta aðstoðarmanns Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata. Í október kenndu bandarískir embættismenn Rússum um netárásirnar og sökuðu þá um að skipta sér af kosningabaráttunni.

Nú vitnar New York Times í yfirmenn hjá bandarískum leyniþjónustum sem segjast vera vissir um að rússneskir hakkarar hafi komist inn í tölvukerfi landsnefnda Repúblikaflokksins og Demókrataflokksins en aðeins birt upplýsingar sem fundust í kerfi demókrata.

Er talið að rússnesku hakkararnir hafi látið WikiLeaks fá þau skjöl sem fundust í tölvukerfi demókratanna.

Demókratar brugðust illa við þegar að í ljós kom að einhver hafi hakkað sig inn í tölvupósta landsnefndarinnar og John Podesta, kosningastjóra Clinton. Tölvupóstar Podesta voru birtir á vefsíðu Wikileaks.

The Washington Post vitnar í ónefndan embættismann sem segir leyniþjónustur hafa borið kennsl á einstaklinga sem tengjast rússneskum stjórnvöldum og hafa afhent WikiLeaks þúsundir tölvupósta frá landsnefndinni og Podega.

Á einum tímapunkti í kosningabaráttu sinni hvatti Trump Rússa opinberlega til þess að „finna“ tölvupósta Clinton en sagðist seinna hafa verið að tala í kaldhæðni.

Demókratar hafa sagt netárásirnar viljandi verk til þess að sverta kosningabaráttu Clinton.

Talsmaður Hvíta hússins sagði í gær að Obama vildi rannsaka netárásirnar því hann taldi þær „mjög alvarlegar“.

Donald Trump og Hillary Clinton.
Donald Trump og Hillary Clinton. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert