Vilja Trump og Pútín til Færeyja

Donald Trump og Vladimir Pútín.
Donald Trump og Vladimir Pútín. AFP

Þingmenn færeyska Miðflokksins, þeir Jenis av Rana og Bill Justinussen, hafa sent áskorun á lögmann Færeyja, Akseli V. Johannesen, um að bjóða þeim Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, til landsins.

Greint var frá því í fjölmiðlum um síðustu helgi að Trump og Pútín stefndu að því að funda nokkrum vikum eftir að sá fyrrnefndi hefur tekið við embætti forseta Bandaríkjanna. Fulltrúar Trumps og Pútíns hafa síðan sagt að ekkert slíkt sé fyrirhugað.

Þingmennirnir, sem eru einu þingmenn Miðflokksins, vísa til þess í áskorun sinni til lögmannsins að talað hafi verið um að Trump og Pútín gætu hugsanlega ákveðið að funda á Íslandi. Miðflokkurinn vilji að þeim verði boðið til Færeyja.

Þeir vísa einnig til þess að Færeyjar sé eitt af fáum löndum í heiminum sem hafa átt friðsamleg samskipti við bæði Bandaríkin og Rússland og landfræðileg staða landsins sé einnig rök fyrir því að slíkur fundur færi fram þar í landi.

Þá minna þeir einnig á náttúrufegurð í Færeyjum sem leiðtogarnir tveir gætu notið í leiðinni. Slíkur fundur yrði ennfremur til þess að koma landinu á landakortið.

Frá þessu greinir færeyski vefurinn In.fo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert