Dóttir Donalds Trump, Ivanka, hvatti Bandaríkjamenn til þess í gær í viðtali við sjónvarpsstöðina ABC að veita honum tækifæri til þess að sanna sig í embætti. Trump sver í dag formlega eið sem næsti forseti Bandaríkjanna.
Haft er eftir Ivönku Trump í frétt AFP að faðir hennar búi yfir miklum hæfileikum til að sameina fólk. „Við gagnrýnendur hans vil ég segja þetta: Leyfið honum að taka við embættinu. Leyfið honum að sanna að þið hafið á röngu að standa.“
Hún viðurkenndi þó að hún hefði hvatt föður sinn til þess að hafa gætur á orðum sínum á samfélagsmiðlinum Twitter. Spurð að því hvað hún vildi segja við þúsundir mótmælenda sem búist er við að leggi leið sína til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, í dag vegna embættistökunnar svaraði hún: „Veitið föður mínum tækifæri.“