Trump tekur Bandaríkin út úr TPP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun síðar í dag undirrita tilskipun þess efnis að Bandaríkjamenn láti af þátttöku sinni í fyrirhuguðum fríverslunarsamningi ríkja við Kyrrahaf sem samið var um í tíð forvera hans í embætti, Baracks Obama.

Rifjað er upp í frétt AFP að Trump hafi í kosningabaráttu sinni heitið því að draga Bandaríkin út úr samningnum sem var undirritaður árið 2015 en hefur ekki verið endanlega staðfestur af þeim tólf ríkjum sem eiga aðild að honum að Japan undanskildu.

Trump hefur haldið því fram að samningurinn, sem nefnist Trans-Pacific Partnership (TPP), kosti bandarísk störf og gangi þvert á hagsmuni Bandaríkjanna. Yfirlýst markmið samningsins var að stemma stigu við vaxandi efnahagslegum áhrifum Kína.

Ríkin sem undirrituðu fríverslunarsamninginn eru auk Bandaríkjanna og Japans Ástralía, Kanada, Malasía, Mexíkó, Nýja-Sjáland og Brúnei. Óvíst er um framtíð samningsins láti Bandaríkin af þátttöku sinni en forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hefur sagt að án Bandaríkjamanna sé ekkert vit í honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert