Hundruð þúsunda tölva sýktar í Kína

Stjórnvöld, fyrirtæki og netöryggisfyrirtæki eru í dag í viðbragðsstöðu vegna …
Stjórnvöld, fyrirtæki og netöryggisfyrirtæki eru í dag í viðbragðsstöðu vegna þessarar feykiút­breiddu og öfl­ugu netárásar. AFP

Hundruð þúsunda kínverskra tölva hjá tæplega 30.000 stofnunum, m.a. hjá ríkisstofnunum, hafa orðið fyrir tölvuárásum að því er AFP-fréttastofan hefur eftir kínverskum hugbúnaðarframleiðanda. Litlar fréttir hafa annars enn borist frá Asíuríkjum af áhrifum netárásarinnar sem hófst á föstudag.

Netöryggisdeild Qihoo 360 hugbúnaðarframleiðandans, sem er einn stærsti vírusvarnarframleiðandi Kína, sagði veirunnar hafa orðið vart hjá 29.372 stofnunum og fyrirtækjum frá því síðla á laugardag. Hefði áhrifa veirunnar gætt á skrifstofum ríkisstofnana, í háskólum, hraðbönkum og sjúkrahúsum.  

Kínversk stjórnvöld hafa lítið viljað tjá sig um málið, en kínverskir fjölmiðlar hafa þó eftir netöryggisyfirvöldum í landinu að tölvuvírusinn sé enn að breiðast út.

Greindi ríkisrekna olíufyrirtækið Petro China m.a. frá því að að það hefði þurft að aftengja net bensínstöðva sinna í 12 tíma eftir að netgreiðslukerfi fyrirtækisins hætti að virka.

Þá greindi japanska fyrirtækið Hitachi frá því nú í morgun að tölvukerfi fyrirtækisins væri „óstöðugt“ og hefði lamað tölvupóstkerfið.

„Við urðum vör við vandamál í morgun. Við gerum ráð fyrir að vandinn tengist netárásinni um helgina. Við höfum enn ekki fengið neinar skýrslur varðandi framleiðsluskaða og vitum ekki hvenær hægt verður að leysa málið,“ hefur AFP eftir heimildamanni sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Netárásin hófst á föstudag með árás á banka, sjúkrahús og ríkisstofnanir, en tölvu­veir­an nýt­ir sér þekkt­an galla í Windows-stýri­kerfi Microsoft sem banda­ríska leyniþjón­ust­an hafði fundið.

Stjórnvöld, fyrirtæki og netöryggisfyrirtæki eru í dag í viðbragðsstöðu vegna þessarar feykiút­breiddu og öfl­ugu netárásar, en talið er að áhrifa hennar eigi eftir að gæta enn víðar í dag þegar fólk snýr aftur til vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert