Netárásin ýtti Brexit aftur fyrir spítalana

Konunglega sjúkrahúsið í London. Fjöldi sjúkrahúsa varð að vísa sjúklingum …
Konunglega sjúkrahúsið í London. Fjöldi sjúkrahúsa varð að vísa sjúklingum frá vegna netárásarinnar á föstudag. Sum þeirra biðja enn sjúklinga að koma ekki nema ástand þeirra sé alvarlegt. AFP

Tölvuárásin sem hófst á föstudag, m.a. með netárásum á breskar heilbrigðistofnanir og sjúkrahús, hefur nú gert breska heilbrigðiskerfið að einu helsta hitamáli kosningabaráttunnar fyrir þingkosningarnar í Bretlandi í næsta mánuði.

Mikil ringulreið varð á fjölda heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa í Bretlandi á föstudag og varð að vísa sjúklingum og sjúkrabílum víða frá þegar „WannaCry“-tölvuveiran tók tölvukerfi stofnananna í gíslingu. Tölvuveiran hefur hrundið af stað bylgju gagnagíslatöku  (e. ran­someware) sem nú geng­ur yfir heim­inn og hef­ur náð til um 200 þúsund not­enda í 150 lönd­um.

Bretar hafa lengi verið stoltir af heilbrigðiskerfi sínu (NHS), að sögn Reuters-fréttastofunnar, en þjónusta NHS er ókeypis fyrir notendur. Ný skoðanakönnun, sem birt var í dag sýnir að heilbrigðiskerfið skiptir kjósendur meira máli varðandi þingkosningarnar 8. júní en útgangan úr Evrópusambandinu eða ástand efnahagsmála.

Breskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um hvaða áhrif tölvuvírusinn hefur haft á sjúkrahús landsins og Verkamannaflokkurinn hefur sakað forsætisráðherrann Theresu May um slæleg viðbrögð við málinu og að stjórn Íhaldsflokksins hafi látið hjá líða að veita heilbrigðiskerfinu nægjanlega fjármuni.

„Viðbrögð stjórnvalda hafa einkennst af ringulreið, satt best að segja,“ sagði Jon Ashworth sem fer fyrir heilbrigðismálum hjá Verkamannaflokknum.

„Ef það á að minnka fjárframlög til innviða og ef ekki á að gera NHS kleift að uppfæra tölvukerfi sín, þá verða sjúkrahúsin opin fyrir svona árásum,“ sagði hann.

Bretar verja um 145 milljörðum punda til heilbrigðismála á ári, eða um 20% af fjárframlögum ríkisins.

Sérfræðingar í netöryggismálum unnu alla helgina að að því að koma kerfinu í lag, en sum sjúkrahús fara þess þó enn á leit við sjúklinga að þeir komi ekki inn nema ástand þeirra sé alvarlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert