Mnangagwa gagnrýndur fyrir vinahylli

Emmerson Mnangagwa forseti Simbabve hefur verið gagnrýndur fyrir að velja …
Emmerson Mnangagwa forseti Simbabve hefur verið gagnrýndur fyrir að velja með sér í stjórn þá sem komu honum til valda. AFP

Em­mer­son Mn­angagwa, sem tók við embætti for­seta Simba­bve í síðustu viku, hef­ur nú skipað nýja stjórn í land­inu. Nýja rík­is­stjórn­in er að sögn BBC að mestu skipuð ráðherr­um sem fyr­ir voru í stjórn fyrr­ver­andi for­set­ans Robert Muga­bes, sem sagði af sér í kjöl­far mót­mæla og valda­töku hers­ins, og hátt sett­um ein­stak­ling­um í hern­um.

Þannig hef­ur her­for­ing­inn Si­bus­iso Moyo, sem til­kynnti íbú­um lands­ins um yf­ir­tök­una í rík­is­sjón­varpi Simba­bve, nú verið skipaður ut­an­rík­is­ráðherra. Yf­ir­maður flug­hers lands­ins Perence Shiri, er nýr land­búnaðarráðherra Simba­bve.

Þegar Mn­angagwa tók við völd­um með aðstoð hers­ins í síðustu viku lofaði hann nýj­um tíma. Ráðherra­val hans hef­ur því þegar vakið gagn­rýni hjá mörg­um.

Tendai Biti einn af gagn­rýn­end­um stjórn­ar­inn­ar seg­ir það hafa verið rangt hjá Simba­bve­bú­um að von­ast eft­ir breyt­ing­um. „Þangað til núna höf­um við leyft vald­arán­inu að njóta vaf­ans. Við gerðum það í þeirri ein­lægu en ef til vill barna­legu von um fram­far­ir í land­inu. Við þráðum breyt­ing­ar, frið og stöðug­leika í landi okk­ar. Hversu rangt höfðum við ekki fyr­ir okk­ur,“ sagði Biti.

Dag­blaðseig­and­inn Trevor Ncu­be sagði ráðherra­skip­an­ina „veru­leg von­brigði“.  „Þetta er að stærst­um hlut sama fólk og olli vand­an­um. Hveiti­brauðsdög­un­um er lokið og veru­leik­inn blas­ir nú við,“ sagði Ncu­be. Mn­angagwa hafi virst vera mest í mun að launa þeim sem komu hon­um til valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert