Ris nýfasisma tengt árásum á hælisleitendur

Lögreglumenn að störfum í Macerata eftir skotárásina á laugardag. Árásin …
Lögreglumenn að störfum í Macerata eftir skotárásina á laugardag. Árásin er sögð vera nýjasta dæmið um árásir hægri öfgamanna á innflytendur. AFP

Þeim sem styðja samtök fasista fer nú verulega fjölgandi á Ítalíu. Andstæðingar þeirra segja bjagaða mynd af hælisleitendavandanum, fjölgun falsfrétta og afneitun þjóðarinnar á eigin fortíð vera helstu ástæðurnar fyrir vinsældunum, en rúm 70 ár eru nú frá láti Benito Mussolinis.

Fjallað er um málið á vef Guardian sem segir skotárásina í Macerata á laugardag, þar sem að sex Afríkumenn særðust, vera nýjasta dæmið um árásir hægri öfgamanna á innflytjendur. Að sögn andfasísku samtakanna Infoantifa Ecn hafa hópar nýfasista staðið fyrir 142 slíkum árásum frá 2014.

Daginn eftir skotárásina í Macerata greindu fjórir Norður-Afríkumenn lögreglu í Pavia frá því að þeir hefðu orðið fyrir árás 25 skallabulla þá um kvöldið. Þann 13. janúar réðust tugir liðsmanna í hægri öfgasamtökunum Forza Nuova inn á fund um menningu Rómafólks og ollu þar skemmdum, auk þess að valda skipuleggjanda fundarins áverkum.

Forza Nuova hefur boðið Luca Traini, sem nú situr í …
Forza Nuova hefur boðið Luca Traini, sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna skotárásarinnar í Macerata, lögfræðiaðstoð. AFP

Með fleiri fylgjendur en stærsti vinstri flokkurinn

Árið 2001 voru liðsmenn Forza Nuova aðeins 1.500 talsins. Í dag eru þeir 13.000 og Facebook-síða þeirra hefur 241.000 fylgjendur sem er tæplega 20.000 fleiri fylgjendur en stærsti vinstri flokkur landsins getur státað af.

CasaPound-flokkurinn, sem einnig sækir í hugmyndafræði fasistahreyfingarinnar, er með tæplega 234.000 fylgismenn og ritari flokksins, Simone Di Stefano, ætlar að gefa kost á sér sem forsætisráðherra í þingkosningunum í mars á þessu ári.

„Við erum búin að stækka af sjálfsdáðum og án nokkurrar aðstoðar frá fjölmiðlum,“ sagði  Adriano Da Pozzo, formaður Forza Nuova, í samtali við Guardian. „Aðrir flokkar leggja áherslu á að kynna frambjóðendur sína, við leggjum áherslu á að kynna hugmyndafræði okkar.“ Forza Nuova hefur boðið Luca Traini, sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna skotárásarinnar í Macerata, lögfræðiaðstoð.

Benito Mussolini heilsar hér með Rómarkveðjunni svonefndu. Hún er bönnuð …
Benito Mussolini heilsar hér með Rómarkveðjunni svonefndu. Hún er bönnuð í bæði Þýskalandi og Austurríki en tilraun ítalska þingsins til að banna hana var felld. AFP

Skortir vilja til að stöðva þá

Andstæðingar fasistasamtakanna segja tregðu til að grípa til aðgerða gegn þeim gera samtökunum kleift að auka styrk sinn. Þingmaðurinn Emanuele Fiano lagði fram frumvarp á síðasta ári sem banna átti áróður fasista og sem hljóðaði auk þess upp á allt að tveggja ára fangelsisdóm fyrir þá sem gerðust sekir um að selja fasísk minnismerki eða sem heilsuðu með fasistakveðjunni, Rómarkveðjunni svonefndu sem er ólögleg í bæði Þýskalandi og Austurríki. Vegna andstöðu frá Forza Italia, flokki fyrrverandi forsætisráðherrans Silvio Berlusconi, og Lega Nord, tókst ekki að fá frumvarpið samþykkt.

„Við höfum miklar áhyggjur,“ sagði Carla Nespolo, formaður ANPI, samtaka sem stofnuð voru af liðsmönnum ítölsku andspyrnuhreyfingarinnar sem barðist gegn Mussolini á sínum tíma. „Þessir nýju fasistar ráðast á skrifstofur okkar og enginn virðist vilja stöðva þá. Við höfum beðið stjórnvöld að koma í veg fyrir þátttöku flokka sem eru innblásnir af fasisma í komandi þingkosningum á þeim grundvelli að þeir brjóti gegn stjórnarskránni en höfum ekki fengið nein svör.“

Ítalska stjórnarskráin bannar kynningu á hverjum þeim samtökum sem fylgi stefnu fasistaflokksins eða sem hylla hugmyndafræði hans. Engu að síður hafa yfirvöld aldrei gripið til aðgerða gegn CasaPound eða Forza Nuova þó að liðsmenn í samtökunum beri hakakrossa og veifi fasistafánum á mótmælafundum sínum.

Þá lagði ANPI á síðasta ári fram lista með nöfnum 500 vefsíðna sem lofa fasisma á Ítalíu og bað um að lokað yrði á síðurnar, ekkert hefur þó enn verið gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka