Sameinuðu þjóðirnar krefjast þess að spænsk yfirvöld láti lausa þrjá katalónska stjórnmálamenn sem setið hafa í fangelsi í eitt og hálft ár, án þess að hafa verið sakfelldir fyrir lögbrot.
Réttarhöld yfir 12 stjórnmálamönnum katalónsku aðskilnaðarhreyfingarinnar hófust í febrúar og standa enn yfir. Níu eru í varðhaldi. Réttað er yfir mönnunum vegna aðildar þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Katalóníu frá Spáni í október 2017.
„Eðli málsins samkvæmt ætti að frelsa Cuixart, Sànchez og Junqueras samstundis og greiða þeim skaðabætur auk miskabóta í samræmi við alþjóðalög,“ segir í skýrslu frá nefnd SÞ sem rannsakar varðhald sem grunur leikur á að brjóti gegn mannréttindayfirlýsingu SÞ (e. The Working Group og Arbitrary Detention).
Búist er við að réttarhöldunum ljúki í næsta mánuði en dómur verði ekki kveðinn upp fyrr en í haust. Verði þeir fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi vegna ákæru um að hvetja til uppreisnar og fyrir að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu um skamma stund.
Talsmaður spænskra stjórnvalda segir að alla nákvæmni skorti í skýrslu nefndarinnar og að höfundar hennar hafi leyft sér að „litast af og látið matast af róttækum aðskilnaðarsinnum“.