Sýknaður vegna myndbands af Grenfell-líkneski

72 létust í eldsvoðanum í Grenfell-turninum.
72 létust í eldsvoðanum í Grenfell-turninum. AFP

Karl­maður, sem birti mynd­band af pappalíkn­eski af Gren­fell-turn­in­um brenna á báli á What­sApp-sam­fé­lags­miðlin­um, hef­ur nú verið sýknaður af ákæru um birt­ingu á „veru­lega viðbjóðslegu“ efni. 72 lét­ust í elds­voðanum.

BBC grein­ir frá og seg­ir mann­inn, Paul Bus­setti, hafa tekið mynd­bandið í par­tíi sem hann var stadd­ur í í suður­hluta London, sem hann birti svo á What­sApp. Mynd­bandið rataði í kjöl­farið á YouTu­be.

Sak­sókn­ari full­yrti að birt­ing­in hefði ein­kennst af kynþátta­h­atri, en Busetti hafnaði því og sagði fíg­úr­urn­ar í glugg­um pappalíkn­esk­is­ins hafa átt að tákna sig og vini sína.

Mynd­bandið sýndi pappalíkn­eski af bygg­ingu sem á var ritað Gren­fell og var upp­tak­an gerð í par­tíi að viðstödd­um um 30 manns. Sagði Bus­setti vin sinn hafa út­búið líkn­eskið sem hefði átt að vera „brand­ari um okk­ur“. Fólkið í turn­in­um hafi átt að vera fólkið sem var statt í par­tí­inu og því hefði öllu fund­ist þetta „fyndið“. Hann hafi svo deilt upp­tök­unni í tveim­ur What­sApp-hóp­um með um 20 manns og hafi ekki ætlað að láta það fara víðar.

Dóm­stóll sýknaði hann í dag af ákær­unni, en mynd­bandið vakti mikla reiði á sam­fé­lags­miðlum og sagði ætt­ingi eins þeirra 72 sem lét­ust í elds­voðanum 14. júní 2017 mynd­bandið vera „viðbjóðslegt“.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert