Oriel Junqueras fékk 13 ár

Oriol Junqueras.
Oriol Junqueras. AFP

Níu leiðtogar aðskilnaðarsinna í Katalóníu voru í dag dæmdir í langt fangelsi í hæstarétti Spánar. Oriel Junqueras, formaður ERC, fékk þyngsta dóminn eða 13 ár. Hann var dæmdur fyrir að hafa misnotað opinbert fé og áróður. Dómarnir eru vægari en saksóknari hafði farið fram á en hann hafði meðal annars farið fram á 25 ára fangelsisdóm yfir Oriol Junqueras.

Þrír aðrir fyrrverandi ráðherrar héraðsstjórnar Katalóníu fengu 12 ára dóm en aðrir vægari refsingu.

AFP

Fyrrverandi leiðtogi sjálfstæðissinna, Carles Puigdemont, segir fangelsisdómana hneyksli. „100 ár samanlagt. Hneyksli.“

Hann hvetur fólk til þess að bregðast við og mótmæla en Puigdemont, sem er fyrrverandi forseti Katalóníu,  fór í útlegð til Belgíu, var ekki meðal sakborninga, þar sem spænskt réttarkerfi heimilar ekki réttarhöld að sakborningum fjarstöddum. 

Alls voru 12 ákærðir og eru flestir þeirra fyrrverandi ráðherra í héraðsstjórn Katalóníu. Þeir voru ákærðir í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í héraðinu um sjálfstæði 1. október 2017.

Fyrrverandi forseti þingsins, Carme Forcadell, fékk 11 ára og sex mánaða fangelsisdóm og Jordi Sanchez og Jordi Cuixart voru dæmdir í 9 ára fangelsi. Aðeins þrír af 12 ákærðu þurfa ekki að afplána refsingu þar sem þeim var gert að greiða sekt. 

Níu af sakborningunum tólf voru ákærðir fyrir að hafa tekið þátt í byltingartilraun og þrír eru sakaðir um óhlýðni og að hafa misnotað almannafé. Andreu Van den Eynde, lögmaður tveggja sakborninganna sakaði spænsk stjórnvöld um að hafa brotið á réttindum skjólstæðinga sinna og sagði þá sitja undir sök vegna stjórnmálaskoðana sinna.

Óháð nefnd sérfræðinga á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna kallaði eftir því í maí að þremur þeirra yrði sleppt þegar í stað úr haldi spænskra stjórnvalda. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að fangelsun mannanna þriggja, Jordi Cuixart, Jordi Sanchez og Oriol Junqueras, væri byggð á geðþótta frekar en lögum. Þá bryti fangavist mannanna gegn mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mennirnir voru handteknir í október og nóvember 2017 eftir að leiðtogar héraðsins gerðu tilraun til þess að lýsa yfir sjálfstæði þess og hafa þeir verið í haldi spænskra stjórnvalda síðan þá. Nefndin skoðaði ekki mál hinna sem voru dæmdir í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert