Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í Barcelona á Spáni í dag. Mótmælin eru þau fjölmennustu sem hafa verið frá því þau hófust á mánudag. Fangelsisdómum leiðtoga aðskilnaðarsinna sem vilja sjálfstæði Katalóníuhéraðs er mótmælt. Aðskilnaðarsinnar hvöttu til allsherjar mótmæla í Katalóníu í dag.
Samgöngur eru víða í lamasessi, flugi hefur verið aflýst af alþjóðaflugvellinum í borginni og verslunum var víða lokað og eftirsóttir ferðamannastaðir borgarinnar voru tepptir af mótmælendum.
Talið er að yfir hálf milljón manna hafi tekið þátt í mótmælunum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru þetta um 525 þúsund manns. Flestir mótmætlu friðsamlega og gengu fylktu liði um miðborg Barcelona með skilt. Ungir mótmælendur kveiktu eld og létu ófriðsamlega. Lögreglan beitti táragasi og skaut gúmmíkúlum á mótmælendur.
Fyrstu þrír dagar mótmælanna hafa þegar kostað spænska ríkið um 1.575.000 evrur vegna skemmdarverka sem hafa verið unnin. Til að mynda hafa umferðarljós og -skilti verið eyðilögð, tré og ruslatunnur skemmdar svo dæmi séu tekin.