Kjallari fannst í garði við leit að McCann

Kjallarinn var áður undir garðhúsi sem nú hefur verið rifið.
Kjallarinn var áður undir garðhúsi sem nú hefur verið rifið. AFP

Lög­reglu­menn í Hanno­ver í Þýskalandi fundu kjall­ara í garði sem Christian Brückner hafði til af­nota. Brückner er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Madeleine McCann úr hótel­íbúð vorið 2007 í Portúgal.

Kjall­ar­inn er sagður hafa verið und­ir garðhýsi sem stóð þar áður en er nú búið að rífa. Þýsk­ir fjöl­miðlar fylgj­ast vel með leit­inni sem hef­ur staðið í nokkra daga en þýska lög­regl­an verst fregna. The Guar­di­an grein­ir frá.

Upp­gröft­ur í garðinum hófst fyr­ir tveim­ur dög­um og eru tvær litl­ar gröf­ur notaðar í verkið. Rétt­ar­meina­fræðing­ar eru á svæðinu og leit­ar­hund­ar eru til taks. Brückner er sagður hafa búið í húsi ná­lægt garðinum um skamma hríð árið 2007. Lög­reglu­menn hafa einnig leitað í Lind­en-skurðinum sem er skammt frá.

Leitarhundar eru notaðir við leitina í garðinum.
Leit­ar­hund­ar eru notaðir við leit­ina í garðinum. AFP

Flug­um­ferð yfir leit­ar­svæðið bönnuð

Rann­sókn á hvarfi Madeleine hófst að nýju í júní þegar þýsk yf­ir­völd greindu frá því að Brückner væri grunaður um aðild að hvarf­inu. Fram hef­ur komið að Þjóðverj­inn, sem er 43 ára gam­all, hafi sagt öðrum manni þar sem þeir sátu á bar að hann hefði átt aðild að hvarfi Madeleine. Eins hefði hann sýnt fé­laga sín­um mynd­skeið af sér þar sem hann nauðgar 72 ára gam­alli konu í Al­gar­ve árið 2005.

Íbúum á svæðinu er út­hlutað garðspild­um í garðinum og hafa þær til af­nota. Íbúi sem var með af­not af garðspildu við hliðina á þeirri sem nú er verið að grafa upp sagði í sam­tali við þýska miðil­inn Bild að kjall­ar­inn hefði til­heyrt spild­unni í „mörg ár“ og ekki hefði verið fyllt upp í hann þegar garðhýsið var rifið í lok 2007.

Lög­regl­an hef­ur lokað af svæði í kring­um garðinn og sett upp skil­rúm svo fjöl­miðlar eða aðrir sjái ekki hvað fer fram. Þá hef­ur lög­regla látið banna flug­um­ferð yfir garðinn til að koma í veg fyr­ir að drón­ar eða þyrl­ur séu notuð til að fylgj­ast með upp­greftr­in­um.

Lögreglan hefur sett upp skilrúm svo fjölmiðlar og almenningur geti …
Lög­regl­an hef­ur sett upp skil­rúm svo fjöl­miðlar og al­menn­ing­ur geti ekki séð hvað fer fram á vett­vangi. AFP

Tel­ur að Madeleine sé lát­in

Lög­regl­an hef­ur ekki gefið út hvað hún von­ast til að finna en hef­ur staðfest að leit­in teng­ist rann­sókn á hvarfi Madeleine McCann. Fyr­ir nokkr­um vik­um gerði lög­regl­an leit í yf­ir­gefnu verk­smiðju­hús­næði þar sem Brückner bjó um tíma og fann þúsund­ir mynda á mynd­bands­spól­um og USB-lykla sem búið var að grafa í jörð. Á þeim voru meðal ann­ars mynd­ir af kyn­ferðis­legri mis­notk­un á börn­um.

Hans Christian Wolters, yf­ir­sak­sókn­ari í Brunswick, hef­ur ít­rekað sagt í til­kynn­ing­um og viðtöl­um að rann­sak­end­ur hafi sann­an­ir fyr­ir því að Brückner hafi átt aðild að hvarfi McCann. Hann hef­ur einnig sagt að hann telji að hún sé lát­in en hef­ur neitað að veita frek­ari upp­lýs­ing­ar.

Garður­inn sem leitað er í er á dreif­býl­is­svæði milli Hanno­ver og Brunswick.

Áhugi fjölmiðla er gríðarlega mikill en lögregla verst allra fregna.
Áhugi fjöl­miðla er gríðarlega mik­ill en lög­regla verst allra fregna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert