Ætlaði að gera þriðju árásina

00:00
00:00

Maður sem drap 51 mann­eskju í tveim­ur mosk­um á Nýja-Sjálandi í fyrra ætlaði sér að ráðast til at­lögu í þriðju mosk­unni en hann ætlaði að brenna þær all­ar til grunna og drepa eins marga og hann mögu­lega gæti.

Þetta kom fram á fyrsta degi rétt­ar­hald­anna yfir Ástr­al­an­um Brent­on Tarr­ant í dag. Hann hef­ur játað að hafa framið 51 morð, 40 morðtil­raun­ir og hryðju­verk. Hann á yfir höfði sér lífstíðardóm, jafn­vel án mögu­leika á reynslu­lausn, refs­ing sem hef­ur aldrei áður verið dæmd á Nýja-Sjálandi áður. 

Hryðju­verka­árás­in var fram­in í borg­inni Christchurch 15. mars í fyrra. Árás­armaður­inn streymdi beint frá voðaverk­un­um og áður en slökkt var á út­send­ing­unni mátti sjá hann skjóta fólk til bana. 

Árás­armaður­inn ók fyrst að Al Noor-mosk­unni og skaut þar á fólk sem var við föstu­dags­bæn­ir. Þaðan ók hann að Linwood-mosk­unni og drap þar fleiri. 

Rétt­ar­höld­in hóf­ust í dag og munu standa í fjóra daga í Christchurch. Vegna kór­ónu­veirunn­ar er rétt­ar­sal­ur­inn nán­ast auður en hundruð fylgj­ast með í gegn­um mynd­búnað frá rétt­ar­saln­um.

Nokkr­ir þeirra sem lifðu árás­irn­ar af voru viðstadd­ir og báru vitni fyr­ir fram­an fjölda­morðingj­ann. „Ég get ekki fyr­ir­gefið þér,“ seg­ir Maysoon Salama, en son­ur henn­ar, Atta Elayy­an, var drep­inn. Salama sagðir gjörðir árás­ar­manns­ins ófyr­ir­gef­an­leg­ar, að hann hefði sjálf­ur veitt sér heim­ild til þess að taka af lífi fólk sem hafði ekki brotið neitt af sér. Eina ástæðan var trú­ar­skoðun þess – að vera mús­lím­ar. 

„Þú hélst að þú gæt­ir brotið okk­ur en þér mistókst herfi­lega,“ bætti Salama við og það eina sem árás­in hefði skilað væri að þau væru enn trygg­ari trú sinni og að ást­vin­ir þeirra væru orðnir að píslar­vott­um. Fleiri tóku í svipaðan streng og þökkuðu árás­ar­mann­in­um fyr­ir að hafa sam­einað sam­fé­lag mús­líma enn bet­ur. 

Frétt BBC

AFP
Ástralski hryðjuverkamaðurinn Brenton Tarrant.
Ástr­alski hryðju­verkamaður­inn Brent­on Tarr­ant. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert