„Hinseginlaus svæði“ óvelkomin

Kona sem ásamt hópi fólks mótmælti stöðu hinseginfólks í Póllandi …
Kona sem ásamt hópi fólks mótmælti stöðu hinseginfólks í Póllandi fyrir utan fund Evrópusambandsins. AFP

Í ávarpi sem hún beindi að stjórn­völd­um í Póllandi sagði Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB), að „hinseg­in­laus“ svæði ættu ekki heima inn­an ESB. 

„Ég mun ekki láta staðar numið þegar kem­ur að því að byggja upp sam­band jafn­rétt­is,“ lofaði Leyen í ræðu sinni.

Hún kallaði eft­ir sam­bandi þar sem „þú get­ur verið sá sem þú vilt og elskað hvern sem þú vilt án þess að þurfa að ótt­ast ávít­ur eða mis­mun­un“.

Ursula von der Leyen flytur ræðu sína.
Ursula von der Leyen flyt­ur ræðu sína. AFP

„Vegna þess að það að vera þú sjálf­ur er ekki þín hug­mynda­fræði. Það er sjálfs­mynd þín. Eng­inn get­ur nokk­urn tím­ann tekið hana burt. Ég vil hafa það al­veg á hreinu að hinseg­in­laus svæði eru svæði án mennsku. Og þau eiga ekki er­indi í sam­bandið okk­ar,“ sagði Leyen.

Staða hinseg­in fólks í Póllandi slæm

Staða hinseg­in fólks í Póllandi hef­ur farið versn­andi und­an­farið. For­seti Pól­lands, Andrzej Duda, var end­ur­kjör­inn for­seti lands­ins í kosn­ing­um sem fram fóru í júlí síðastliðnum. Ekki er langt síðan hann líkti hug­mynda­fræði hinseg­in fólks, LG­BTQI, við komm­ún­isma.

Í ág­úst hand­tók lög­regl­an í Var­sjá í Póllandi þrjá sem grunaðir eru um að hafa hengt regn­boga­fána á stytt­ur í borg­inni. Voru þre­menn­ing­arn­ir ákærðir fyr­ir að van­helga stytt­urn­ar og mis­bjóða trú­ar­leg­um skoðunum.

Í júlí á síðasta ári var hinseg­in fólk í Póllandi grýtt í gleðigöngu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert