Breivik fer fram á reynslulausn

Anders Behring Breivik sést hér umkringdur laganna vörðum í Skien-fangelsinu …
Anders Behring Breivik sést hér umkringdur laganna vörðum í Skien-fangelsinu þar sem hann hefur setið á bak við lás og slá undanfarinn áratug. AFP

Norski fjölda­morðing­inn And­ers Behring Brei­vik heilsaði að sið nas­ista og hélt á spjaldi með rasísk­um skila­boðum er hann fór í dag fram á reynslu­lausn úr fang­elsi. Litl­ar lík­ur eru tald­ar á því að hon­um verði sleppt úr haldi en rúm­ur ára­tug­ur er nú liðinn frá voðaverk­un­um sem hann framdi í Nor­egi. 

Brei­vik, sem er 42 ára gam­all, hef­ur setið á bak við lás og slá í Skien-fang­els­inu í Nor­egi. Hann mætti í dómsal héraðsdóms í Telemark þar sem fjallað verður um reynslu­lausn­ina næstu þrjá daga. 

Ætt­ingj­ar þeirra sem féllu fyr­ir hendi Brei­vik ótt­ast að þing­haldið verði tæki­færi fyr­ir Brei­vik til að koma sín­um póli­tísku skoðunum á fram­færi, en sýnt verður beint frá þing­hald­inu. Ætt­ingjarn­ir hafa kallað eft­ir því að Brei­vik fái ekki þessa at­hygli sem hann sjálf­ur ósk­ar eft­ir. 

Brei­vik var dæmd­ur í 21 árs „for­var­ing“ árið 2012 fyr­ir að hafa myrt 77 í skipu­lögðum árás­um. Það úrræði er ólíkt hefðbundn­um refsi­dómi að því leyti að hægt verður að fram­lengja dóm­inn ótíma­bundið svo lengi sem dóm­ar­ar telji sam­fé­lag­inu enn stafa ógn af hon­um.

Dóm­ur­inn yfir Brei­vik var þá þyngsti dóm­ur sem hef­ur fallið í sögu Nor­egs. Í kjöl­far hryðju­verk­anna gerði norska þingið laga­breyt­ing­ar sem heim­ila þyngri dóma. 

Fram kem­ur í um­fjöll­un AFP, að Brei­vik hafi þurft að afplána að minnsta kosti 10 ára dóm í fang­elsi áður en hann gæti óskað eft­ir reynslu­lausn. 

Þann 22. júlí 2011 myrti Brei­vik átta þegar hann sprengdi sprengju sem var um borð í flutn­inga­bíl skammt frá skrif­stof­um norska rík­is­ins í Ósló. Þá skaut hann 69 til bana, mest­megn­is ung­menni í sum­ar­búðum ungliðahreyf­ing­ar Verka­manna­flokks­ins, á eyj­unni Útey. 

Brei­vik sagðist hafa skotið þau til bana af því að þau aðhyllt­ust alþjóðahyggju. 

Fjölda­morðin árið 2011 voru þau mann­skæðustu í Nor­egi frá tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert