Tate handtekinn í Rúmeníu

Andrew Tate var handtekinn í Rúmeníu í kvöld.
Andrew Tate var handtekinn í Rúmeníu í kvöld.

Andrew Tate, fyrr­ver­andi heims­meist­ari í spark­boxi, var hand­tek­inn ásamt bróður sín­um, Trist­an, af rúm­ensku lög­regl­unni fyrr í kvöld. Eru bræðurn­ir grunaðir um að hafa átt þátt í man­sali og nauðgun­um.

Sam­kvæmt rúm­ensk­um fjöl­miðlum voru bræðurn­ir færðir til yf­ir­heyrslu vegna gruns um að þeir hafi staðið að skipu­lagðri glæp­a­starf­semi, sem meðal ann­ars fólst í því að kon­ur voru neydd­ar til þess að taka þátt í fram­leiðslu klám­mynd­banda.

Tate vakti at­hygli fyrr á ár­inu fyr­ir um­deild­ar yf­ir­lýs­ing­ar sín­ar á sam­fé­lags­miðlum, sem þóttu bera vott um kven­hat­ur og var hann bannaður af sam­fé­lags­miðlun­um Face­book, TikT­ok og Twitter. Tate fékk hins veg­ar að snúa aft­ur á síðar­nefnda miðil­inn eft­ir að auðkýf­ing­ur­inn Elon Musk festi kaup á hon­um.

Bræðurn­ir voru einnig yf­ir­heyrðir í apríl þegar lög­regl­an fann tvær stúlk­ur sem sögðu að þeim hefði verið haldið gegn vilja sín­um. Bræðrun­um var hins veg­ar sleppt, þó að rann­sókn máls­ins héldi áfram.

Tate hef­ur síðustu daga átt í netrifr­ildi við um­hverf­issinn­ann Gretu Thun­berg. Herma óstaðfest­ar fregn­ir að rúm­enska lög­regl­an hafi getað staðfest að Tate væri stadd­ur í Rúm­en­íu út frá mynd­skeiði sem hann tók upp til þess að svara Thun­berg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert