Drengur lést skömmu eftir að hafa verið bjargað

Fjöldi látinna er nú orðinn meiri en 43 þúsund.
Fjöldi látinna er nú orðinn meiri en 43 þúsund. AFP/Yasin Akgul

Þrír fund­ust á lífi und­ir rúst­um í Anta­kya Tyrklandi 13 dög­um eft­ir að 7,8 stiga jarðskjálfti reið yfir landið. Aðeins tveir af þess­um þrem­ur komust lífs af eft­ir að hafa verið hífðir upp af björg­un­ar­sveit­ar­mönn­um, en 12 ára dreng­ur lét lífið skömmu eft­ir að hafa verið bjargað.

Fjöldi lát­inna eft­ir skjálft­ann hef­ur nú risið upp í 43 þúsund en um er að ræða ein­ar mann­skæðustu nátt­úru­ham­far­ir sem hafa gengið yfir svæðið í marg­ar ald­ir.

Björg­un­ar­sveit­ar­menn eru enn að finna fólk á lífi und­ir rúst­um þrátt fyr­ir að næst­um tvær vik­ur séu liðnar frá skjálft­an­um og níst­ingskuldi sé úti.

Í dag greindi fréttamiðill­inn Ana­dolu frá því að björg­un­ar­sveit­ar­menn hefðu fundið karl, konu og ung­an dreng sem höfðu verið graf­in und­ir rúst­um í 296 klukku­stund­ir. Dreng­ur­inn dó skömmu síðar.

Fahrett­in Koca, heil­brigðisráðherra Tyrk­lands, greindi frá því í tísti að kon­an væri kom­in til meðvit­und­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert