Malasía bannar lögboðna dauðarefsingu

Myntin tengist fréttinni ekki beint.
Myntin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Paul Buck

Malasíska þingið hef­ur samþykkt að af­nema lög­boðnar dauðrefs­ing­ar. Um 1.300 fang­ar eru nú á dauðadeild í rík­inu. 

BBC grein­ir frá því að öll­um dauðarefs­ing­um hafi verið frestað frá ár­inu 2018.

Af­námið sem þingið greiddi at­kvæði um varðar lög sem kveða á um að glæpa­menn skuli tekn­ir af lífi ef þeir hafa framið einn af ell­efu glæp­um sem eru skil­greind­ir sem al­var­leg­ir. Meðal glæpa sem flokk­ast sem al­var­leg­ir eru morð og hryðju­verk. 

Sam­kvæmt þing­inu á fram­veg­is að dæma þá sem framið hafa al­var­lega glæpi í lífstíðarfang­elsi, sem er há­mark 40 ár í Malas­íu, eða veita þeim lík­am­lega refs­ingu. 

1.318 tekn­ir af lífi frá 1992

Þingmaður­inn Ramkar­pal Singh sagði í þing­inu í dag að dauðarefs­ing væri óaft­ur­kræf og kæmi ekki í veg fyr­ir glæpi. 

„Dauðarefs­ing hef­ur ekki skilað þeim ár­angri sem hún átti að skila,“ sagði hann. 

Efri deild þings­ins á enn eft­ir að greiða at­kvæði um laga­breyt­ing­una, en talið er að hún verði einnig samþykkt þar. 

Það eru 34 sak­ar­efni sem eru þess eðlis að krefjast má dauðarefs­ing­ar fyr­ir í Malas­íu. Ell­efu þeirra höfðu sjálf­krafa í för með sér dauðarefs­ingu fyr­ir breyt­ing­una í dag. 

Þeir 1.341 fang­ar Malas­íu sem sitja nú á dauðadeild hafa 90 daga til að krefjast end­urupp­töku á mál­um sín­um. 

Malasía er eitt af 53 ríkj­um heims sem leyfa dauðarefs­ingu. Meðal annarra ríkja sem heim­ila refs­ing­una eru Kína og Singa­púr. 

Sam­kvæmt op­in­ber­um gögn­um hafa 1.318 fang­ar verið hengd­ir í Malas­íu frá ár­inu 1992 til fram til árs­ins 2023. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert