Skipuleggjandi Kabúl sprengingarinnar sagður látinn

Kabúl féll í hendur talibana í ágúst 2021.
Kabúl féll í hendur talibana í ágúst 2021. AFP/ Wakil Kohsar

Hvíta húsið hef­ur lýst því yfir að sá, inn­an ISIS-Khoras­an sam­tak­anna, sem hafi borið ábyrgð á og skipu­lagt sjálfs­morðsspreng­ing­una á flug­vell­in­um í Kabúl þann 26. ág­úst 2021 hafi verið ráðinn af dög­um.

Þessu grein­ir CNN frá.

Sam­kvæmt BBC var ISIS-Khoras­an-liðinn drep­inn af tali­bön­um fyr­ir nokkr­um vik­um síðan en nauðsyn­legt hafi verið að staðfesta and­lát hans áður en það væri til­kynnt.

Ekki er ljóst hvort að maður­inn hafi verið skot­mark talib­ana eða hvort að hann hafi verið drep­inn í viðvar­andi átök­um á milli talib­ana og ISIS-Khoras­an á svæðinu.  

Sjálfs­morðssprengj­an árið 2021 var sprengd í mik­illi mann­mergð á flug­vell­in­um í Kabúl í Af­gan­ist­an, stuttu áður en Banda­ríkja­menn luku við að flytja herlið sitt þaðan. Ríf­lega 170 létu lífið í spreng­ing­unni.

Í um­fjöll­un BBC kem­ur fram að Banda­rík­in hafi haf­ist handa við að láta aðstand­end­ur her­manna, sem létu lífið í spreng­ing­unni árið 2021 vita af and­láti manns­ins, í gær.

Nafn manns­ins hef­ur ekki verið op­in­berað. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert