Feðgar um borð í kafbátnum

Flak Titanic er á 3.800 metra dýpi í Atlantshafi.
Flak Titanic er á 3.800 metra dýpi í Atlantshafi. AFP/Woods Hole Oceanographic Institution

Fimm manns eru um borð í týnda kafbátnum sem ætlað var að skoða flak skipsins Titanic. Umfangsmikil leit stendur yfir í Atlantshafi.

Pakistanskur auðkýfingur, Shahzada Dawood, og sonur hans, Suleman, eru meðal þeirra sem eru um borð. Dawood tilheyrir einni af ríkustu fjölskyldum Pakistans, að því er BBC greinir frá.

Þá er Paul-Henry Nargeolet, 73 ára franskur landkönnuður, einnig talinn vera um borð í kafbátnum. Jafnframt er talið að Stockton Rush sé um borð, en hann er framkvæmdastjóri OceanGate, fyrirtækisins sem sér um ferðina.

Greint var frá því í gær að breska auðkýfingsins Hamish Harding væri einnig saknað.

Sónarleit neðansjávar

Samband við áhöfn bátsins slitnaði einni klukkustund og 45 mínútum eftir að lagt var af stað niður að skipsflaki Titanic.

Tvær flugvélar bandarísku strandgæslunnar leita að kafbátnum á yfirborði vatnsins. Þá fer fram sónarleit neðansjávar.

Flak Titanic er á 3.800 metra dýpi í Atlantshafi og um 600 kílómetra frá strönd Kanada. Kafbáturinn hefur vanalega súrefnisbirgðir til 96 klukkustunda ef fimm einstaklingar eru um borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert