„Hafið er hávaðasamt“

Kafbáts OceanGate og áhafnar hans er leitað nótt sem dag …
Kafbáts OceanGate og áhafnar hans er leitað nótt sem dag en tíminn og súrefnið renna brátt sitt skeið á enda. AFP/OceanGate Expeditions

Enn greinast hljóð, einhvers konar högg eða bank, á hafsvæðinu þar sem kafbáts OceanGate hefur verið leitað nótt sem dag eftir að hann hvarf með manni og mús á leið sinni niður að flaki Titanic.

Hafa næmir hljóðnemar Lockheed P-3 Orion-kafbátaleitarflugvélar bandaríska flughersins ítrekað greint hljóðin, hugsanlega síðustu lífsmörk fimm manna áhafnar kafbátsins sem um þetta leyti í gær var talin hafa súrefnisbirgðir til 40 klukkustunda. Síðan er liðinn sólarhringur. Finnist báturinn ekki á næstu klukkustundum þarf því ekki að spyrja að leikslokum.

„Við verðum að vera bjartsýn og halda í vonina þegar um leitar- og björgunaraðgerðir er að ræða,“ segir Jamie Frederick, talsmaður bandarísku landhelgisgæslunnar, sem enn fremur greinir frá því að Frakkar leggi nú sitt lóð á vogarskálarnar og sendi leitarteymi með mjög háþróaðan búnað til neðansjávarleitar.

Leitarsvæðið hefur nú stækkað töluvert og er flatarmál þess nú sem nemur tæplega hálfu flatarmáli Íslands, 40.000 ferkílómetrar. Á dýptina er kafbátsins leitað niður á fjögurra kílómetra dýpi.

Ekki endilega tilefni til bjartsýni

Bankið sem P-3-vélin greindi er þó engin ávísun á björgun áhafnarinnar, sé hún enn á lífi. Frá hafinu berst ógrynni hljóða sem nemar kafbátaleitarvélarinnar greina og skila þeim sem hlusta. Ekkert er hægt að segja um hvort bank eða högg komi frá fólkinu í kafbátnum, „hafið er hávaðasamt“ skrifar breska ríkisútvarpið BBC, „the ocean is a noisy place“.

Frederick hjá landhelgisgæslunni heldur áfram að greina fjölmiðlum og heiminum frá gangi mála. „Hér þarf að taka tillit til fjölda þátta. Þegar það hefur verið gert erum við stundum í þeirri stöðu að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Þangað erum við ekki komin enn. Höldum við leitinni áfram gætum við komið að þeim stað [...] Þá umræðu tökum við með fjölskyldunum [fjölskyldum áhafnar kafbátsins] löngu áður en ég ræði þau mál opinberlega,“ segir Jamie Frederick.

BBC

CBS

Sky News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert