Allir um borð taldir af

Leitin hefur vakið heimsathygli en hér má sjá skólabörn á …
Leitin hefur vakið heimsathygli en hér má sjá skólabörn á Indlandi leggja lokahönd á málverk af mönnunum sem voru um borð í kafbátnum. AFP/Indranil Mukherjee

Allir fimm mennirnir er voru um borð í kafbátnum Titan sem hvarf á mánudag eru taldir af. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OceanGate sem gerir út kafbátinn. BBC greinir frá.

Fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu. 

Forstjóri OceanGate, Stockton Rush, var einn fimm mannanna í kafbátnum. Þar að auki voru fegðarnir Shahzada og Suleman Dawood, Hamish Hardin og Paul-Henri Nargeolet um borð. 

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir alla vikuna en kafbáturinn hafði súrefnisbirgðir til um 96 klukkustunda þegar hann lagði úr höfn. Kafbáturinn var á leið í skoðunarferð niður að flaki Titanic.

Báturinn féll saman

Á blaðamannafundi bandarísku landhelgisgæslunnar nú á áttunda tímanum í kvöld kom fram að leitarmenn landhelgisgæslunnar telji að báturinn hafi fallið saman vegna þrýstings. Allir mennirnir hafi látist samstundis. 

Atvikið er talið hafa átt sér stað um 490 metra frá stafni flaks Titanic.

Næstu skref eru óljós en brak hefur fundist úr bátnum. Fjarstýrðir kafbátar munu áfram vakta svæðið og í kringum flak Titanic. 

Enn er óljóst hvort hægt verði að sækja lík mannanna fimm. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert