Erfitt að greina hljóð úr skrokki kafbátsins

Bandaríska strandgæslan í Boston, þaðan sem leit að kafbátnum er …
Bandaríska strandgæslan í Boston, þaðan sem leit að kafbátnum er stjórnað. AFP/Scott Eisen

Fjarstýrður kafbátur hefur verið sendur á hafsbotn í leit að týnda kafbátnum, sem ætlað var að skoða flak Titanic.

Fjarðstýrði báturinn hefur ekki enn komist að því hvaðan hljóð sem bárust úr hafi komu. 

Möguleikinn á því að finna týnda kafbátinn fer eftir því hve vel gengur að afmarka leitarsvæðið. Þetta segir jarðeðlisfræðingurinn dr. Rob Larter. Hann sagði þau hljóð sem hafi heyrst úr hafinu geta verið vísbendingar um hvar kafbátinn sé að finna. 

„Í ljósi þess hversu stórt leitarsvæðið er enn, þá gefur það til kynna að ekki sé búið að staðsetja nákvæmlega hvaðan hljóðin berast.“

Leitarsvæðið er enn gríðarstórt, eða um 26.000 ferkílómetrar. 

Hljóðin eru numin af baujum sem fljóta á haffletinum og er vonin sú að fjöldi hlustunarbauja geti þrengt svæðið enn frekar.

Daufara hljóð

Frank Owen, sem er sérfræðingur í björgun kafbáta á sjó, segir þetta gerlegt. Í samtali við BBC  sagði hann að vandinn væri hins vegar sá að skrokkur kafbátsins er úr harðplastskel, en ekki úr stáli eins og í hefðbundnum kafbáti.

Hljóðið sem berst er því „eins og barið sé í viðardrumb en ekki í málmbjöllu. Hljóðið er lægra og kæfðara, því er það ekki skýrt og hvellt hljóð sem berst. Og það hljóð berst mun verr í vatni“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert