Háleynilegt kerfi nam sprenginguna á sunnudag

Háleynilegt kerfi bandaríska sjóhersins nam hljóð, sem talið er að …
Háleynilegt kerfi bandaríska sjóhersins nam hljóð, sem talið er að hafi orðið þegar kafbáturinn Titan féll saman. AFP/OceanGate Expeditions

Sprenging greindist í Atlantshafi á sunnudag, nokkrum klukkustundum eftir að kafbáturinn Titan sigldi úr höfn. Háleynilegt kerfi bandaríska sjóhersins nam sprenginguna, en kerfið er hannað til að nema hljóð frá hreyfingum kafbáta annarra ríkja sem reynst gætu óvinveitt Bandaríkjunum. 

Sjóherinn tók að hlusta eftir kafbátnum um leið og samband við hann rofnaði.

Skömmu eftir hvarf hans nam kerfið hljóð sem kann að hafa verið hljóðið sem varð þegar báturinn féll saman vegna þrýstings. Svokölluð innsprenging.

Wall Street Journal greinir frá og hefur eftir ónefndum, háttsettum foringja innan hersins, að sjóherinn hafi strax látið vita af hljóðinu, sem varð á hafsvæðinu í grennd við Titanic.

Umfangsmikil leit stóð yfir frá því seint á sunnudag. Síðdegis á fimmtudag var greint frá því að kafbáturinn fórst og að talið væri öruggt að allir fimm mennirnir sem voru um borð væru látnir. 

Kafbáturinn var á leið í skoðunarferð niður að flaki Titanic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert