Leikstjóri Titanic: „OceanGate var varað við“

James Cameron, leikstjóra kvikmyndarinnar Titanic, grunaði strax hvað hafði gerst.
James Cameron, leikstjóra kvikmyndarinnar Titanic, grunaði strax hvað hafði gerst. Samsett mynd

James Cameron, leikstjóra kvikmyndarinnar Titanic, grunaði að eitthvað skelfilegt hefði gerst um leið og tilkynnt var um hvarf kafbátsins Titan á sunnudag.

Eins og greint hefur verið frá fórust allir fimm farþegar um borð í kafbátnum þegar hann féll saman vegna þrýstings. Báturinn var á leið niður að flaki Titanic, sem liggur á 3.800 metra dýpi í Atlantshafi.

„Ég fann í beinum mínum hvað hafði gerst. Rafbúnaður bátsins bilaði, samskiptakerfi hans bilaði og mælirinn bilaði, samtímis – kafbáturinn er farinn,“ sagði Cameron við BBC í gær.

Hann sagði slíkt ekki geta gerst án þess að einhver skelfilegur atburður ætti sér stað. Það fyrsta sem honum datt í hug var innsprenging, sem reyndist svo vera raunin.

Hræðileg kaldhæðni

Cameron hefur sjálfur kafað 33 sinnum niður að flaki Titanic.

Hann sagði „hræðilega kaldhæðni“ í því að tapa Titan kafbátnum og áhöfn hans og bar það saman við þegar skipið Titanic sökk árið 1912, en þá létust 1.500 manns.

„Við erum núna með annað flak sem byggist því miður á sömu atriðum, að ekki var hlustað á viðvaranir,“ sagði hann. „OceanGate var varað við.“

Tók hann fram að sumir innan köfunarsamfélagsins, þó ekki hann sjálfur, hefðu skrifað bréf til fyrirtækisins þar sem þeir sögðust trúa því að stórslys yrði, fyrr eða síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert