Telja sig hafa fundið líkamsleifar

Þeir sem fórust voru auðkýfingurinn Hamish Harding, efst til vinstri, …
Þeir sem fórust voru auðkýfingurinn Hamish Harding, efst til vinstri, Stockton Rush, stofnandi OceanGate-fyrirtækisins, efst til hægri, djúpsjávarkönnuðurinn Paul-Henri Nargeolet, og feðgarnir Suleman Dawood og Shahzada Dawood. AFP/Samsett mynd

Strandgæsla Bandaríkjanna telur sig hafa fundið líkamsleifar í brakinu af kafbátnum Titan, sem fórst fyrr í mánuðinum við köfun að Titanic. 

Í tilkynningu gæslunnar sagði að læknar á vegum hennar myndu rannsaka það sem talið væri leifar af mönnum, og að mikilli nærfærni hefði verið beitt þegar meintar leifar voru sóttar.

Kafbáturinn féll saman 18. júní síðastliðinn vegna bilunar í ytra byrði bátsins. Um borð voru breski auðkýfingurinn Hamish Harding, franski djúpsjávarkönnuðurinn Paul-Henri Nargeoleot, pakistanski viðskiptajöfurinn Shahzada Dawood, sonur hans Suleman Dawood og Stockton Rush, stofnandi OceanGate-fyrirtækisins sem rak kafbátinn. 

Talið er að mennirnir fimm hafi látið lífið á innan við andartaki þegar Titan féll saman, en brak úr bátnum var flutt til hafnar í Kanada í dag. Verður það flutt til Bandaríkjanna til rannsóknar til þess að greina hvað hafi valdið slysinu. 

Jason Neubauer, kafteinn í strandgæslunni og sá sem stýrði leitar- og björgunaraðgerðum sagði að enn væri margt sem þyrfti að rannsaka til þess að skilja hvers vegna Titan-slysið varð og til að koma í veg fyrir að svipað slys geti hent aftur. 

Strandgæslan hefur kallað saman slysarannsóknarnefnd sína sem sinnir mikilvægustu málunum sem koma á borð gæslunnar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert