Dennis Rader, sem gengur undir viðurnefninu BTK-fjöldamorðinginn, kallaði getnaðarlim sinn Rex. Gleymdi hann þessari staðreynd í bréfu sínu til fréttastofu Fox þar sem hann bendir á líkindi milli sín og Rex Heuermanns sem var handtekinn í síðustu viku og er ákærður fyrir morð á þremur konum.
Rader var dæmdur í ævilangt fangelsi árið 2005 fyrir tíu morð sem hann framdi á árunum 1974 til 1991. Eins og segir var viðurnefni hans BTK, en það stendur fyrir „Bind, torture, kill“ eða „binda, pynta, drepa“.
Í viðtali við NewsNation minnist Katherine Ramsland, prófessor í réttarsálfræði, þess að Rader hafi á sínum tíma beðið lögreglu að kalla sig Rex sem væri nafnið á typpi hans. Rader hefur sagt að hann hafi myrt til að fullnægja kynferðislegum hvötum sínum.
Spurð hvort hún telji Rader hafa verið fyrirmynd Heuermann segist Ramsland ekki telja svo vera. Hún bendir á að Rader hafi farið heim til venjulegs fólk til að myrða það.
Hann hafi ekki sérstaklega leitað að vændiskonum, líkt og Heuermann virðist hafa gert. Segir hún Rader heldur ekki hafa sýnt fórnarlömbum sínum sömu fyrirlitningu og Heuermann.
Ramsland telur þó Rader vilja trúa því að hann hafi verið fyrirmynd Heuermann.
Í bréfi sínu til Fox bendir Rader á að erfðaefni og raftæki hafi leitt til handtöku hans og Heuermann.
Ramsland segir ekki rétt að benda á það sem líkindi milli þeirra, enda hafi Rader gefið lögreglu tölvudiskinn sem leiddi til handtöku hans.
Heuermann var handtekinn eftir að erfðaefni úr honum á pítsukassa kom heim og saman við erfðaefni sem fannst á hári eins fórnarlambanna. Eins hafði Chevrolet Avalanche-pallbifreið verið í eigu grunaða þegar konurnar voru myrtar og sá vitni slíka bifreið aka af vettvangi eins líkfundarstaðanna á sínum tíma.
Þá sýndu gögn tengd sjö óskráðum farsímum, sem Heuermann er talinn hafa notað til að hringja í fórnarlömb sín, staðsetningar sem ýta undir grun rannsakenda en hann losaði sig við símana eftir að konurnar voru myrtar.
Viðtalið við Ramsland má hlusta á hér fyrir neðan.