Sigla suðurleiðina um Afríku til að forðast Húta

CMA CGM Palais Royal, stærsta gámaflutningaskip heims, er eitt þeirra …
CMA CGM Palais Royal, stærsta gámaflutningaskip heims, er eitt þeirra skipa sem siglt hefur um suðurhluta Rauðahafs og Hútar hafa ógnað með aðgerðum sínum. AFP

Átján skipafyrirtæki hafa fyrirskipað flutningaskipum sínum að sigla suður í kringum Afríku til þess að forðast Rauðahaf, þar sem fjöldi flutningaskipa hefur orðið fyrir árásum að undanförnu. Vestræn ríki hafa kennt uppreisnarmönnum Húta í Jemen um árásirnar.

Þetta segir Arsenio Dominguez, forstjóri Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, sem heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar.

„Talsverður fjöldi fyrirtækja, um það bil átján, hefur þegar ákveðið að beina skipum sína í kringum Suður-Afríku til þess að fækka árásum á skipin sín,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Dominguez. Það þýðir að allar ferðir verði tíu dögum lengri en ella, sem muni hafa slæm áhrif á viðskiptin og auka flutningskostnað.

Hút­ar skutu tveim­ur flug­skeyt­um í suður­hluta Rauðahafs frá Jemen í gærkvöldi, að sögn bandarískra stjórnvalda. Þeir eru taldir hafa gert árás­irn­ar til stuðnings hryðju­verka­sam­tök­un­um Ham­as og eru þeir studd­ir af klerka­stjórn­inni í Íran. Það var 24. árás­in sem beint var gegn kaup­skip­um á suður­hluta Rauðahafs síðan 19. nóv­em­ber, að sögn bandarískra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka