Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sem myrti 77 manns árið 2011 og er núna í sjálfsvígshugleiðingum að sögn lögfræðings hans, kom fyrir rétt í morgun vegna máls sem hann höfðaði gegn norska ríkinu.
Þegar Breivik mætti í íþróttasal Ringerike-fangelsisins þar sem fimm daga réttarhöldin hófust í morgun, var hann klæddur dökkum jakkafötum og krúnurakaður.
Hann hafði ekki uppi ögrandi tilburði líkt og hann hefur gert við svipuð tilefni.
Breivik, sem er 44 ára, hefur ávallt verið haldið frá öðrum föngum á þeim stöðum þar sem hann hefur dvalið við hámarks öryggisgæslu síðastliðin 11 ár.
Hann segir að þessi langa einangrun brjóti gegn þriðju grein mannréttindasáttmála Evrópu um bann við „ómannúðlegri” eða „niðurlægjandi” meðferð.
Í júlí árið 2011 sprengdi Breivik sprengju skammt frá skrifstofum stjórnvalda í Ósló, höfuðborg Noregs, sem varð átta manns að bana. Eftir það skaut hann til bana 69 til viðbótar, aðallega ungmenni, í sumarbúðum Verkamannaflokksins í Útey.
Hann var dæmdur árið 2012 í 21 árs fangelsi, sem hægt er að framlengja svo lengi sem hann telst ógn við samfélagið.
Síðan þá hefur hann setið „í einangrun og því lengri tími sem líður þeim mun alvarlegra er brotið á mannréttindasáttmálanum”, sagði lögmaður hans Oystein Storrvik við AFP í október síðastliðnum.
Í dómsskjölum segir Storrvik að einangrunin hafi orðið til þess að Breivik glími við andlega erfiðleika, þar á meðal sé hann í sjálfsvígshugleiðingum.
„Hann notar geðlyfið Prozac til að geta komist í gegnum daginn í fangelsinu,” segir Storrvik.
Að hans sögn á Breivik eingöngu persónuleg samskipti við tvo aðra fanga sem hann hittir í eina klukkustund á tveggja vikna fresti undir ströngu eftirliti, fyrir utan samskipti hans við starfsmenn fangelsisins.
Breivik hefur einnig bent á aðra grein mannréttindasáttmálans um réttinn til samskipta og hefur hann óskað eftir því að banni við að skrifa bréf til fólks utan fangelsisins verði aflétt.