Skipafélögin Hapag Lloyd og Maersk hafa fagnað loftárásum Bandaríkjamanna og Breta á skotmörk í Jemen.
Uppreisnarmenn Húta hafa gert skipafélögum heimsins marga skráveifuna undanfarnar vikur.
Hútar sem fylgja Hamas að málum hafa ítrekið ráðist á fraktskip á leið þeirra um Rauðahaf áleiðis í Súesskurð.
Talsmaður þýska skipafélagsins Hapag Lloyd segir að þeir „fagni aðgerðum sem gera muni sjóleiðina um Rauðahaf örugga á ný.“
Danska skipafélagið Maersk segist vona að aukið öryggi á Rauðahafi verði til þess að skipafélög fari að nota leiðina að nýju. Maersk hafði áður bent á það að neytendur séu þegar farnir að finna fyrir þeim röskunum sem orðið hafa á sjóleiðum í hærra vöruverði. Forstjóri Maersk, Vincent Clerc, hefur fyrir atburði næturinnar, kallað eftir auknum herstyrk til að verja sjóleiðina um Rauðahaf.
Miklu munar á þeim tíma sem það tekur vörur að berast frá Asíu og Evrópu ef ekki er hægt að fara um Rauðahaf og Súesskurð.
Samkvæmt umfjöllun BBC getur skip sem siglir frá Formósu til Rotterdam verið rúma 25 daga, ef farið er um Súesskurð. Þurfi skip hins vegar að sigla fyrir Afríku eru þau 34 daga á leiðinni. Lengri flutningstími verður til þess að verð til neytenda hækkar.