Jemenskir Hútar hafa staðið fyrir fjölda árása í Rauðahafinu undanfarnar vikur. Árásir á Rauðahafinu hafa truflað siglingar á svæðinu og varar forsætisráðherra Katars við frekari afleiðingum. Ástandið hefur stigmagnast í kjölfar loftárása Bandaríkjamanna og Breta.
Grískt flutningaskip varð fyrir flugskeyti fyrir utan Jemen í dag. Frá þessu greindi öryggisfyrirtæki sem sérhæfir sig í öryggismálum á hafi.
Skipið sigldi undir fána Möltu en var í grískri eigu. Það varð fyrir flugskeytinu þegar það átti leið um suðurhluta Rauðahafsins í átt norður. Skipið var á leið frá Ísrael að Súez-skurðinum en breytti þó um stefnu í átt að hafnarsvæði í kjölfar árásarinnar.
Hútar, sem hófu árásir á bandarísk skip á sunnudag og mánudag í kjölfar árása Bandaríkjanna og Bretlands á yfirráðasvæði þeirra í síðustu viku, hafa ekki tjáð sig um árásina á flutningaskipið.
Bandaríkjamenn hafa gert árástir á skotmörk uppreisnarmanna Húta í Jemen og Hútar hafa svarað í sama tón. Hútar hafa heitið því að svara árásum með því að halda sínum eigin árásum áfram á Rauðahafi.
Árásir Húta beindust til að byrja með að skipum tengdum Ísrael en eftir árásir Bandaríkjanna og Bretlands lýstu uppreisnarmennirnir því yfir að skip tengd ríkjunum væru lögmæt skotmörk.
Siglingaöryggisstofnun á vegum breska sjóhersins tilkynnti einnig atvik á svæðinu án þess að gefa frekari upplýsingar.
Forsætisráðherra Katars hefur varað við afleiðingum átakanna í Rauðahafi og sagði hann árásir á Jemen geta gert ástandið verra. Hann bætir við að aðrar leiðir séu mögulegar fyrir skipin en bætti við að „þessar leiðir eru ekki skilvirkari heldur eru þær mun óhagkvæmari en núverandi leið“.
Forsætisráðherrann ítrekar einnig að hernaðaríhlutun muni ekki binda endi á átökin heldur þvert á móti telur hann hana skapa frekari stigmögnun.