Eyðilögðu flugskeyti Húta eftir árásina

Frá aðgerðum um borð í bandaríska herskipinu USS Dwight D. …
Frá aðgerðum um borð í bandaríska herskipinu USS Dwight D. Eisenhower. AFP

Bandarískar hersveitir eyðilögðu flugskeyti Húta sem stefndi á Rauðahaf, nokkrum klukkustundum eftir að Hútar hæfðu breskt olíuskip á Aden-flóa.

Aðgerðastjórnstöð Bandaríkjahers (CENTCOM) sagði aðgerðina hafa verið gerða í sjálfsvörn þar sem flugskeytið var tilbúið til að fara á loft.

„Sveitir gerðu árás og eyðilögðu flugskeytið í sjálfsvörn,“ sagði í yfirlýsingu CENTCOM.

„Árásin varð til þess að skipið brann“

Breska olíuskipið Marlin Luanda varð fyrir flugskeytaárás Húta í gærkvöldi.

„Árásin varð til þess að skipið brann,“ sagði talsmaður vígahópsins, Yahya Saree.

Herskip komu olíuskipinu til aðstoðar og eru allir skipverjar sagðir óhultir.

Hútar eru studdir af klerkastjórninni í Íran og segjast með árásum sínum vera að styðja málstað Palestínumanna á Gasa í stríði Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas.

Bandarískar og breskar hersveitir hafa hafið sameiginlegar árásir til að draga úr getu Húta til að miða á skip sem sigla um helstu viðskiptaleið Rauðahafs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka