Tekist hefur að slökkva eldinn sem kom upp í olíuskipinu Marlin Luanda, eftir að Hútar hæfðu skipið með eldflaug seint í gærkvöldi þegar skipið var á siglingu um Aden-flóa.
Um borð í skipinu er afar eldfimur farmur: Nafta, eða nokkurs konar vetnisblanda í vökvaformi sem skyld er hráolíu.
Eftir árásina kom upp mikill eldur í einu farangursrýma skipsins.
Til aðstoðar skipinu sigldu bandaríska herskipið USS Carney, franska freigátan FS Alsace og indverska freigátan INS Visakhapatnam.
Í tilkynningu frá bandaríska hernum segir nú að skipin þrjú hafi veitt bráðnauðsynlega aðstoð við að slökkva eldinn. Auk þess var áhöfninni sjálfri komið til hjálpar en hún hafði þegar þar var komið sögu þurrausið eigin tæki og tól til að ráða niðurlögum eldsins.
Áhöfnina skipa 22 Indverjar og einn Bangladessi.
„Þökk sé þessum skjótu viðbrögðum bandarísku, indversku og frönsku sjóherjanna hefur eldurinn verið slökktur. Ekkert mannfall varð við árásina, skipið heldur enn sjó og hefur snúið aftur á leið sína,“ segir í tilkynningu hersins.
Tekið er fram að náðst hafi að afstýra stórslysi þar sem mannslíf hafi verið í húfi, auk sjálfs skipsins, og hætt hafi verið við miklum umhverfisskaða.
„Þessar ólöglegu aðgerðir hafa ekkert að gera með átökin í Gasa. Hvorki skipið né áhöfn þess hafa nokkra tengingu við Ísrael. Hútar hafa skotið skeytingarlaust á Rauða hafið og miðað á skip sem hafa þýðingu fyrir fleiri en fjörutíu lönd víða um heim.“