Lyf við langvarandi covid rannsakað

Hópur norskra vísindamanna rannsakar verkun lyfsins Paxlovid gegn langvarandi einkennum …
Hópur norskra vísindamanna rannsakar verkun lyfsins Paxlovid gegn langvarandi einkennum kórónuveirusýkingar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kches16414

Norskir vísindamenn framkvæma nú rannsókn á verkun lyfsins Paxlovid gegn langvarandi covid sem kallað er (e. long covid), það er að segja langvarandi sjúkdómseinkennum og -ástandi í kjölfar kórónuveirusýkingar. Óska þeir eftir 2.000 sjálfboðaliðum á Óslóarsvæðinu til þátttöku í rannsókn sinni. Þurfa viðkomandi að vera smitaðir af veirunni og vera á aldrinum 18 til 65 ára.

Fram til þessa hefur Paxlovid einungis verið gefið sjúklingum eldri en 65 ára eða fólki með veiklað ónæmiskerfi en lyfið var fyrsta veiruhamlandi lyfið gegn covid-19 til inntöku, sem fékk markaðsleyfi í Evrópusambandinu, eftir því sem Lyfjastofnun greindi frá á heimasíðu sinni í febrúar 2022.

Síþreyta, hjartasjúkdómar og sykursýki

Sýndu niðurstöður rannsóknar á þeim tíma marktækt lægri tíðni andláta og sjúkrahúsinnlagna hjá þeim sem fengu meðferð með því, samanborið við lyfleysu. Þann mánuð, sem sjúklingum var fylgt eftir, var tíðni sjúkrahúsinnlagna eða andláta 0,8 prósent, eða átta tilfelli af 1.039 manns, hjá þeim sem fengu Paxlovid, samanborið við 6,3 prósent, eða 66 tilfelli af 1.046 manns, hjá þeim sem fengu lyfleysu, greindi stofnunin enn fremur frá.

„Þeir sem hafa fengið covid-19 eru í áhættuhópi fyrir að fá síþreytu, hjartasjúkdóma og sykursýki auk þess sem hætta á blóðtappa er fyrir hendi í eitt ár eftir smit,“ segir Nina Langeland, stjórnandi rannsóknarinnar, prófessor við Háskólann í Bergen og sérfræðingur í sýkingarlyfjum, en Langeland hefur um árabil rannsakað langvarandi covid og áhrif þess á sjúklinga.

Hyggjast Langeland og samstarfsfólk hennar við rannsóknina nú kanna hvort Paxlovid, sem er veiruhamlandi lyf sem fyrr segir, og í töfluformi, geti reynst notadrjúgt í baráttunni við langvarandi afleiðingar kórónuveirusýkingar.

Tvíblind tilviljanakennd rannsókn

Útskýrir Langeland í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að útbreiðsla eða magn kórónuveira í líkamanum ráði úrslitum um hættuna á að sjúklingurinn fái langtímaeinkenni. „Okkar kenning er að Paxlovid hafi fyrirbyggjandi áhrif,“ segir prófessorinn.

Rannsóknin er að hennar sögn sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og hófst í Bergen í fyrrasumar en verður nú aukin að umfangi. Um tvíblinda tilviljanakennda samanburðarrannsókn verður að ræða (e. randomized double-blind comparative trial) sem framkvæmd verður þannig að helmingur þátttakenda fær fimm daga meðhöndlun með Paxlovid en hinn helmingurinn fær lyfleysu.

Fyrri rannsóknir á lyfinu hafa gefið misvísandi niðurstöður og óvissa ríkir um verkun þess. Reynist niðurstöður rannsóknar Langeland og samstarfsfólks hennar jákvæðar er því þýðingarmikið skref stigið. Prófessorinn er þó hóflega bjartsýnn.

„Verki Paxlovid eins á alla er ástæða til að skoða hvort fleiri ættu að hljóta meðhöndlun með lyfinu í því augnamiði að fyrirbyggja langtímaeinkenni. Slíkt getur dregið úr veikindafjarvistum og reynst samfélaginu gagnlegt,“ segir Langeland.

Segulómskoðun á heila

Marius Trøseid, prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum við Háskólann í Ósló, segir verðandi þátttakendur í rannsókninni þurfa að hafa samband við stjórnendur hennar sem fyrst – í síðasta lagi fimm dögum eftir að þeir finna fyrir sjúkdómseinkennum. Eins og Langeland hefur hann sínar efasemdir um útkomuna.

„Við höfum framkvæmt fjölda rannsókna á ólíkum lyfjum við covid og okkur hefur lærst að það er mjög erfitt að segja nokkuð fyrr en að hverri rannsókn lokinni,“ segir Trøseid, „þess vegna er mikilvægt að ljúka þessari rannsókn. Við vonum það besta,“ heldur hann áfram.

Hundrað þátttakendanna verða sendir til Þrándheims í segulómskoðun á heila og taugasálfræðileg próf svo meta megi hvort kórónuveiran hafi orsakað breytingar í heila og hvort Paxlovid kunni að geta komið í veg fyrir þær.

Þurfum lengri tíma

Að sögn rannsakendanna eru þó ljón í veginum. Eitt þeirra er sú staðreynd að fjöldi fólks lætur undir höfuð leggjast að prófa sig fyrir veirunni þrátt fyrir að einkenni geri vart við sig.

„Við þurfum lengri tíma, við erum háð því að fólk hlýði ekki tilmælum Lýðheilsustofnunar um að láta ekki prófa sig fyrir veirunni. Sem betur fer hunsa margir þau tilmæli vegna þess að þeir eru hræddir við að smita vinnufélaga sína eða aldraða foreldra,“ segir Langeland.

Hún kveður það fyrst og fremst vera aldurshópinn 18 til 65 ára sem finni fyrir langtímaeinkennum. „Við sjáum minna af þeim hjá börnum og eldra fólki,“ segir prófessorinn. Aðrar rannsóknir Langeland hafa sýnt fram á að ítrekuð kórónuveirusmit draga ekki úr hættunni á langvarandi einkennum covid.

„Því er nú verr að margir fá einkenni eftir ítrekaðar sýkingar og lenda þá í veikindafjarvistum frá vinnu,“ segir prófessor Nina Langeland að lokum.

Reiknað er með fyrstu niðurstöðum norsku rannsóknarinnar að ári liðnu.

NRK

NRKII (hófst í Bergen í fyrra)

TV2

Vefsíða rannsóknarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka