Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik tapaði máli sínu gegn norska ríkinu um að hann hefði sætt ómannúðlegri meðferð í fangelsi.
Dómurinn var kveðinn upp í Ósló, höfuðborg Noregs, í dag.
Breivik, sem myrti 77 manns í hryðjuverkum árið 2011, var vistaður í öryggisfangelsi fyrir tólf árum. Síðasta áratuginn hefur hann sætt mikilli einangrun þar sem hann hefur m.a. ekki mátt dvelja meðal samfanga sinna.
Breivik telur aðstæðurnar í fangelsinu bæði ómannúðlegar og niðurlægjandi, og brot gegn þriðju grein mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndi hann norska ríkinu vegna þessa og krafðist þess að losna úr einangrun.