Fundin sek um manndráp af gáleysi

Hannah Gutierrez-Reed, umsjónarmaður vopna á tökustað, sést hér við upphaf …
Hannah Gutierrez-Reed, umsjónarmaður vopna á tökustað, sést hér við upphaf réttarhaldanna í febrúar. AFP/Eddie Moore

Hannah Gutier­rez-Reed, um­sjón­ar­maður skot­vopna og skot­færa á tökustað mynd­ar­inn­ar Rust, var fyrr í kvöld fund­in sek um mann­dráp af gá­leysi fyr­ir aðild sína að and­láti kvik­mynda­töku­manns­ins Halynu Hutchins árið 2021.

Leik­ar­inn Alec Baldw­in, sem hleypti af voðaskot­inu sem drap Hutchins, verður dreg­inn fyr­ir rétt í júlí-mánuði, en hann er einnig ákærður fyr­ir mann­dráp af gá­leysi.

Kviðdóm­ur tók sér ein­ung­is um tvo klukku­tíma til þess að ákv­arða um sekt eða sýknu Gutier­rez-Reed, en rétt­ar­höld­in höfðu staðið yfir í tíu daga. Hún á yfir höfði sér allt að 18 mánaða fang­elsi, en refs­ing henn­ar verður ekki ákveðin fyrr en í næsta mánuði.

Þótti fulls­annað að Gutier­rez-Reed hefði borið ábyrgð á því að al­vöru byssukúla endaði í skot­vopn­inu sem Baldw­in mundaði á tökustað, með þeim af­leiðing­um að skot hljóp úr sex­hleyp­unni og fór í Hutchins. Al­vöru skot­færi voru hins veg­ar bönnuð á tökustað.

Sögðu sak­sókn­ar­ar að Gutier­rez-Reed bæri ábyrgð á því að þau voru til staðar, og jafn­framt að hún hefði van­rækt að sinna skot­vopna­ör­yggi á tökustaðnum líkt og henn­ar hlut­verk var. „Þetta var rúss­nesk rúll­etta í hvert sinn sem leik­ari fékk vopn með gerv­iskot­fær­um í hend­urn­ar,“ sagði Kari T. Morriss­ey, aðalsak­sókn­ari máls­ins í lokaræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert