Íranski hershöfðinginn, sem lést í loftárás 1. apríl á sendiráð Írans í Damaskus, átti sæti í Shura-ráði Hisbollah-samtakanna, sem stjórnar helstu aðgerðum þeirra.
Alls létust sjö úr sveitum íranskra byltingarvarða þegar ráðist var á sendiráð Írans. Voru tveir hershöfðingjar í þeirra hópi.
Einn af þeim sem féllu var Mohammad Reza Zahedi, sem er háttsettur í Quds-sveitunum, en þær fara fyrir erlendum aðgerðum íranska byltingarvarðsveitanna.
Zahedi var sá eini sem ekki var líbanskur í æðstaráði Hisbollah-sveitanna. Shura-ráðið er pólitísk yfirstjórn vígasveitanna, en þar er æðstur Hassan Harallah. Nasrallah ávarpaði sveitir sínar í dag vegna loftárásanna.
Stjórnvöld í Sýrlandi og Íran hafa bæði sakað Ísraela um að bera ábyrgð á árásinni.
Áður hefur verið haft eftir Nasrallah að Hisbollah-samtökin eigi Zahedi mikið að þakka. Zahedi „bjó með okkur í mörg ár, fjarri kastljósinu og var þjónusta hans við andspyrnuhreyfinguna í Líbanon og víðar ómæld,“ sagði Nasrallah í sjónvarpsávarpi á föstudag.
Zahedi, sem var 63 ára þegar hann lést, hafði gegnt ýmsum áhrifastöðum innan íranska byltingarvarðsveitanna í nær fjóra áratugi. Telst hann hátt settasti yfirmaður í íranska hernum til að vera drepinn frá því að Bandaríkjamenn drápu Quasem Soleimani hershöfðingja í loftárás á flugvöllinn í Bagdad árið 2020. Soleimani fór fyrir Quds-sveitunum þegar hann féll.
Stjórnvöld í Teheran hafa heitið því að svara fyrir árásina á sendiráðið. Alls létust 16 manns í árásinni og eru tveir almennir borgarar taldir í þeim hópi.