Trump gæti vel orðið forseti

Thurber fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum í Háskóla Íslands …
Thurber fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum í Háskóla Íslands sl. fimmtudag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands

Lítil kjörsókn gæti stuðlað að sigri Donalds J. Trumps í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Þetta segir James A. Thurber, prófessor emeritus við American University í höfuðborginni Washington.

Thurber hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands síðastliðinn fimmtudag og var þá kynntur sem einn þekktasti fræðimaður Bandaríkjanna á sínu sviði. Hefði skrifað fjölda bóka og meira en 90 fræðigreinar um bandaríska þingið, kosningar og kosningaframboð.

Eftir fyrirlesturinn ræddi Morgunblaðið við Thurber um stöðuna.

Spáði Trump sigri

Kollegi þinn við American University, Allan Lichtman prófessor, er þekktur fyrir spálíkan sitt og rússneska jarðeðlisfræðingsins Vladimírs Keilis-Boroks, um útkomu forsetakosninga í Bandaríkjunum. Telur hann sig hafa jafnan spáð rétt um útkomu kosninga aftur til kosninganna 1984. Þar með talið sigri Trumps 2016. Eins og staðan er reiknar hann með sigri Bidens en tekur fram að mjótt verði á mununum.

„Allan er vinur minn en ég er ósammála honum. Hann er með 13 mælistikur en í vísindum viljum við að líkön hafi sem fæstar breytur.“

Gæti munað sáralitlu

Þú virðist hins vegar telja að það verði lítil þátttaka í kosningunum og að Trump virðist hafa yfirhöndina?

„Við skulum segja að staðan sé hnífjöfn. Ef svo verður áfram þá gætu um tíu þúsund atkvæði í ríkjunum þar sem minnstu munar ráðið úrslitum. Munum líka að Biden vann síðustu kosningar með sjö milljónum atkvæða um gervöll Bandaríkin en það skýrðist fyrst og fremst af New York og Kaliforníu. Það voru samanlögð úrslit. En í öllum hinum ríkjunum fékk Trump 39 þúsund fleiri atkvæði. Mörgum er ekki kunnugt um það.“

En hvers vegna áttu von á dræmri kosningaþátttöku?

„Vegna þess að kjósendur eru ekki spenntir fyrir frambjóðendunum. Þeir eru of gamlir. Stór hópur kjósenda er á aldrinum 18-34 ára.“

Munu ekki kjósa

Mun það gagnast Trump meira en Biden? Margt ungt fólk í Bandaríkjunum hefur verið ósátt við stríðsreksturinn á Gasa og aldur frambjóðenda?

„Og það mun ekki kjósa.“

Þú fjallaðir í fyrirlestri þínum um skautun í bandarískum stjórnmálum. Hverjar eru helstu ástæður vaxandi skautunar á síðustu 30 árum? Tilkoma félagsmiðla?

„Hún er aðgreining mannfjöldans. Það er mikill munur milli dreifbýlis og borganna. Síðan aðlagar fólk sig að því. Þegar fólk hefur komið sér fyrir fylgir það fólkinu sem fyrir er.“

Viðtalið í heild sinni má nálgast í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert