Örlög Trump í höndum kviðdómenda

Donald Trump fullur eldmóðs á lokadegi réttarhaldanna.
Donald Trump fullur eldmóðs á lokadegi réttarhaldanna. AFP/Julia Nikhinson

Kviðdómendur í máli Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hefja í dag samtal um hvort sakfella eigi Trump fyrir að falsa reikninga og önnur gögn í tengslum við greiðslur til klám­mynda­leik­kon­unn­ar Stor­my Daniels. 

Um er að ræða ákvörðun sem getur breytt miklu í tengslum við forsetakosningar Bandaríkjanna sem fara fram í nóvember, en eins og staðan er núna eru sigurlíkur Trumps taldar góðar. 

Örlög Trumps í höndum sér

Réttarhöld í málinu hafa staðið yfir í nokkrar vikur og hafa meiri en 20 vitni borið vitni. Nú er málið þó komið í hendur 12 kviðdómenda sem hafa örlög Trumps í höndum sér, en sama hver niðurstaðan verður þá mun hún hafa mikil áhrif á Trump og landið allt. 

Trump er sakaður um að hafa falsað reikn­inga og önn­ur gögn í tengsl­um við greiðslur til Daniels. Trump og Daniels eiga að hafa átt sam­neyti árið 2006. Fyrsta greiðsla Trumps til að þagga niður í Daniels um sam­neyti þeirra barst árið 2016, fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar í Banda­ríkj­un­um.

Verði Trump fundinn sekur munu pólitískar afleiðingar vega mun þyngra en alvarleiki ákærunnar þar sem frambjóðandinn yrði dæmdur glæpamaður fimm mánuðum fyrir forsetakosningarnar. 

Ásetningur Trumps gæti ekki verið skýrari

Á lokadegi réttarhaldanna, sem var í gær, sagði verjandi Trumps að sönnunargögn í málinu væru einfaldlega ekki til. Ákæruvaldið hafnaði því þó og sagði sönnunargögnin vera umfangsmikil og óumflýjanleg. 

„Ásetningur sakborningsins um að svindla gæti ekki verið skýrari,“ sagði saksóknarinn Joshua Steinglass og hvatti kviðdómendur til að nota „heilbrigða skynsemi“ sína. Til að Trump verði sakfelldur þarf niðurstaða kviðdómsins að vera einróma. 

Verði Trump fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi fyrir hvert hinna 34 ákæruatriða, en vegna þess að um er að ræða fyrsta brot Trumps telja lögfræðingar ólíklegt að hann verði látinn sæta fangelsisvist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert