Trump sekur: Bananalýðveldi, fjáröflun og grín

Trump á leið úr réttarsal, að blaðamönnum, eftir að úrskurðurinn …
Trump á leið úr réttarsal, að blaðamönnum, eftir að úrskurðurinn varð ljós. AFP

Viðbrögð vestanhafs eftir að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var dæmdur sekur vegna fölsunar viðskiptaskjala og greiðslna til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels, hafa ekki látið á sér standa. Sumir virðast ekki trúa á lögmæti niðurstöðunnar á meðan aðrir fagna sem aldrei fyrr.

Í gærkvöldi var Trump fundinn sekur í 34 af 34 ákæruliðum. Dómsuppkvaðning í málinu mun fara fram þann 11. júlí næstkomandi og er talið líklegt að Trump muni áfrýja þar sem hann hefur meðal annars sakað dómarann í málinu um spillingu.

Þá er talið óvíst hvaða áhrif þessar nýju vendingar muni hafa á framboð Trump til forseta og kosningarnar þann 5. nóvember næstkomandi. En Trump heldur enn fram sakleysi sínu.

Aldrei hafi átt að ákæra

Viðbrögðin við þessu sögulega máli hafa ekki látið á sér standa vestanhafs en þetta er í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem forseti telst til dæmdra afbrotamanna.

Þrátt fyrir erfiða stöðu hafa hinir ýmsu Repúblikanar ítrekað stuðning sinn við Trump og efast sumir um lögmæti dómsins á meðan aðrir halda því fram að áfrýjun muni vera Trump í hag.

Einn þeirra er til dæmis Mitch McConnell, leiðtogi Re­públi­kana­flokks­ins í öld­unga­deild Bandaríkjaþings. En hann heldur því fram að aldrei hafi átt að ákæra Trump. 

Þá tekur Kevin McCarthy, fyrrum for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings í sama streng og segir eina glæpin sem Trump hafi framið vera að bjóða sig fram gegn Biden. 

Endalokin nærri

Fjölmiðlamaðurinn Tucker Carlson segir endalok bandaríska dómskerfisins upp runnin. 

Donald Trump yngri, sonur forsetans fyrrverandi, hefur einnig tjáð sig um málið á X. Meðal annars deilir hann myndbandsbút frá Fox News sem dregur lögmæti niðurstöðu kviðdómsins í efa og segir einfaldlega: „Svona lítur þriðja heims bananalýðveldi út.“

Enginn yfir lög hafinn

Á meðan reiði og sorg virðist ríkja hjá Repúblíkönum hafa Demókratar fagnað vel. 

Forsetaframboð Biden og Harris hefur til dæmis nýtt sér niðurstöðuna til þess að afla fjár. 

Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings tók í sama streng og fjöldi fólks. Að enginn sé yfir lög og reglu hafinn. 

„Lögin unnu“

Íbúar New York borgar hafa einnig fagnað á sinn einstaka hátt en réttarhöldin fóru fram í Manhattan. 

Kvöldþátturinn „Tonight Show“ í umsjón Jimmy Fallon deildi einnig myndbandi af Trump að „syngja“ I Fought the Law með The Bobby Fuller Four með eilítið breyttum texta í taxt við málsatvik.

 Sumir hafa fundið mjög skapandi leiðir til þess að deila fregnunum og um leið gleði sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert