Vill banna hvolpajóga

Hvolpar sem nýttir eru í hvolpajóga fá oft ekki nægan …
Hvolpar sem nýttir eru í hvolpajóga fá oft ekki nægan svefn. AFP

Landbúnaðarráðherra Hollands er með í skoðun að banna svokallað hvolpajóga þar sem þátttakendur nota nýfædda hunda í æfingum. Ráðherrann segir hvolpana þjást.

Hvolpajóga, þar sem hefðbundnum jógæfingum og loðnum hvolpum er blandað saman, hefur náð miklum vinsældum í Hollandi síðustu mánuði, sérstaklega í Amsterdam.

Landbúnaðarráðherra landsins, Piet Adema, hefur áhyggjur af þessari þróun og kveðst vera á móti slíkum æfingum. Segir hann að dýrin séu oft vakin sérstaklega fyrir jógatímana en mörg þeirra sýni streitueinkenni.

Hvolpar þurfa svefn rétt eins og ungabörn

„Mér finnst þetta ekki viðeigandi. Hvolpar þurfa að sofa,“ sagði Adema eftir ríkisstjórnarfund.

„Þú þarft að bera þetta saman við börn. Þú getur ekki borið barn út um allt allan liðlangan daginn og látið það gera allskonar hluti. Börn þurfa svefn. Þannig þroskast þau,“ útskýrði ráðherrann og bætti við að hvolpajóga sé algjörlega tilgangslaust.

Landbúnaðarráðherrann vill grípa til aðgerða og leggur til algjört bann við slíkum æfingum sem og notkun á öðrum ungum dýrum eins og kettlingum í sambærilegum tilgangi.

Ráðherrann hefur þó ekki enn náð vilja sínum fram en á netinu er hægt er að bóka hvolpajógatíma í Amsterdam fyrir um 45 evrur, sem jafngildir 6.700 íslenskum krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert