Velja kviðdómara vegna máls Hunters Bidens

Hunter Biden gengur inn í dómshús með eiginkonu sinni Melissu …
Hunter Biden gengur inn í dómshús með eiginkonu sinni Melissu Cohen Biden. AFP

Val kviðdómenda vegna máls Hunters Bidens, sonar Joes Bidens forseta Bandaríkjanna, hefst í dag. Hunter er sakaður um að hafa veitt rangar upplýsingar þegar hann keypti sér skotvopn.

Guardian greinir frá.

Málið teygir anga sína aftur til 2018 en Biden hefur haldið fram sakleysi sínu frá byrjun. Alls er um þrjá ákæruliði að ræða. Hann er sakaður um að hafa keypt sér byssu undir áhrifum fíkniefna og ólöglega haft byssuna undir höndum í 11 daga.

Hon­um er gefið að sök að hafa fært inn rang­ar upp­lýs­ing­ar á eyðublöðum sem fylgdu byssu­kaup un­um þar sem kraf­ist er að viðkom­andi sé ekki und­ir áhrif­um fíkni­efna. 

Greint er frá því að lögmenn Bidens yngri haldi því fram að hann hafi ekki brotið lög.

Málið er höfðað í Wilmington í Delaware-ríki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Biden yngri er í sviðsljósinu vegna vafasamrar háttsemi en hann hefur reglulega komist í fréttir fyrir að komast í kast við lögin. 

Reuters greinir frá því að þetta sé í fyrsta sinn sem réttarhöld fara fram í máli sem höfðað er gegn barni sitjandi forseta en Biden yngri er 54 ára gamall. 

Forsetaframbjóðendur beggja hliða í Bandaríkjunum hafa ekki átt sjö dagana sæla upp á síðkastið en á meðan Biden forseti segist styðja son sinn í gegnum þetta ferli hefur Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, verið fundinn sekur í 34 ákæruliðum vegna máls um fölsun viðskiptaskjala og greiðslur til klámmyndaleikkonu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert