Hótar að vopna nágranna Vesturlanda

Pútín segir það vitleysu að Rússlandi íhugi að ráðast á …
Pútín segir það vitleysu að Rússlandi íhugi að ráðast á aðildarríki NATO. AFP/Valentina Pevtcova

Vladimír Pútín Rússlandsforseti gagnrýndi vopnaflutning til Úkraínu og segir að Rússland gæti með sama hætti vopnað nágrannaþjóðir Vesturlanda.

„Þetta gengur á báða bóga. Við veltum því fyrir okkur,“ sagði hann á blaðamannafundi fyrr í dag. 

Beindi spjótum að Þýskalandi 

„Telji einhver að hann geti flutt vopn á átakasvæði, ógnað yfirráðsvæði okkar og flækt fyrir okkur, af hverju eigum við þá ekki rétt á því að flytja vopn til þeirra svæða sem geta ráðist á viðkvæmar stoðir Vesturlanda,“ sagði Rússlandsforseti. 

Pútín sagði það vera vitleysu að Rússland hugsi um að ráðast á aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

„Það er engin ástæða til þess að gera sér upp einhverja heimsveldisdraumóra af okkar hálfu.“

Hann beindi spjótum sínum sérstaklega að þýskum stjórnvöldum og vísaði til þess að þýskir skriðdrekar væru í fyrsta sinn komnir til Úkraínu síðan á tímum seinni heimstyrjaaldarinnar.

„Þegar þeir segja að fleiri flugskeyti munu hæfa skotmörk á rússnesku yfirráðssvæði, það setur strik í reikninginn þegar kemur að milliríkjasambandi Þýskalands og Rússlands.“ 

Kennir Vesturlöndum um stríðið

Pútín hafnaði því að Rússland hefði átt frumkvæði að stríðinu og sagði þess í stað að bylting hliðholl Vesturlöndum árið 2014 hefði verið kveikja stríðsins. 

„Allir telja að Rússlandi hafi byrjað stríðið. Ég vil leggja áherslu á að enginn á Vesturlöndum, í Evrópu, vill rifja upp hvernig þessar hörmungar byrjuðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert