Selenskí mættur til Þýskalands

Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Volodymyr Selenskí Úkraínuforseti.
Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Volodymyr Selenskí Úkraínuforseti. Samsett mynd

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur ferðast til Þýskalands til að funda með Olaf Scholz kanslara Þýskalands og taka þátt í ráðstefnu um endurreisn Úkraínu.

Greindi forsetinn frá þessu á samfélagsmiðlinum X fyrr í kvöld.

„Ég og Scholz kanslari munum ræða frekari varnaraðstoð, stækkun loftvarnarkerfis Úkraínu og sameiginlega vopnaframleiðslu,“ skrifar Selenskí í færslunni.

Orkugeiri Úkraínu er forgangsverkefni

Selenskí mun taka þátt í ráðstefnuna á morgun og á miðvikudag sem verður sótt af tíu forsætisráðherrum og fulltrúa ríkisstjórna og atvinnulífsins.

„Í ljósi lofthryðjuverka Rússlands munu brýnar lausnir fyrir orkugeirann í Úkraínu vera forgangsverkefni okkar,“ sagði Selenskí.

„Ég mun einnig hitta Frank-Walter Steinmeier sambandsforseta og Barbel Bas, forseta sambandsþingsins, auk þess að heimsækja herstöð þar sem hermenn okkar eru við æfingar,“ bætti Selenskí við.

Næststærsti birgir hergagna fyrir Úkraínu

Selenskí heldur síðan til Sviss til að taka þátt í ráðstefnu um frið í Úkraínu sem 90 lönd og samtök munu sækja.

Þjóðverjar heimiluðu Úkraínumönnum nýverið að nota þýsk vopn til að ráðast á skotmörk í Rússlandi. Áður höfðu þýsk stjórnvöld verið treg til að heimila notkunina vegna ótta við stigmögnum stríðs Úkraínu og Rússlands.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar árið 2022 hefur Þýskaland orðið næststærsti birgir hergagna til Kænugarðs á eftir Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert