Norðmenn styrkja Úkraínu um milljarða

Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Store.
Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Store. AFP

Norðmenn tilkynntu í dag að þeir ætli að veita Úkraínu styrk upp á 1,1 milljarð norskra króna, eða því sem nemur um 14,4 milljörðum íslenskra króna, til að lagfæra orkuinnviði landsins og tryggja raforkuframlag fyrir komandi vetur.

Samkvæmt nýjum mælingum má áætla að meira en helmingur af innviðum fyrir raforkuframleiðslugetu Úkraínu hafi verið eyðilagðir.

„Rússar eru að gera stórfelldar, kerfisbundnar árásir til að lama raforkukerfið, en Úkraínumenn vinna dag og nótt við að viðhalda nauðsynlegum raforkubirgðum fyrir íbúa,“ segir Jonas Gahr Store, forsætisráðherra Noregs.

Fimm ára fjárveitingatímabil

Store segir yfirvöld Noregs í nánu samstarfi við yfirvöld Úkraínu um hvernig best sé að nýta styrkinn. Hann bætir við að Úkraínumenn viti sjálfir best hvert peningurinn þurfi að fara.

Yfirvöld Noregs hafa heitið rúmum 75 milljörðum norskra króna í hernaðar- og borgaralega aðstoð til Úkraínu yfir fimm ára tímabil, árin 2023 til 2027. Fjárveitingunum verður úthlutað ár hvert í samræmi við þarfir Úkraínu þess sinnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert